Tónlist bæði sönn og ósönn

3 stjörnur

Verk eftir Ásbjörgu Jónsdóttur, Gunnar Karel Másson, Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur og Sigurð Árna Jónsson. Strokkvartettin Siggi lék.

Salurinn í Kópavogi

Þriðjudaginn 11. maí

Steve Martin sagði eitt sinn að það að tala um tónlist væri eins og að dansa um arkítektúr. Tónlist er í eðli í sínu afstrakt, hún er list loftsins, ósýnileg, fjallar um það sem ekki er hægt að tjá með orðum. Orð eru ófullkomin þegar lýsa á tónlist, þau koma aldrei í staðinn fyrir sjálfa upplifunina.

Á tónleikum í Salnum í Kópavogi á þriðjudagskvöldið voru frumfluttir fjórir strengjakvartettar eftir íslensk tónskáld. Á undan flutningnum voru tónskáldin kölluð á sviðið og þau spurð um verkin, hvernig mætti lýsa þeim og hver væri tilurð þeirra.

Tónlist um byggingarefni

Ásbjörg Jónsdóttir reið á vaðið og fræddi áheyrendur um að verk hennar væri hugleiðing um efniviðinn sem Salurinn var byggður með, rekavið, grágrýti og greni. Orð hennar vöktu eftirvæntingu og tónahendingarnar sem verkið byggðist á voru einfaldar og lagrænar, og létu vel í eyru. Sjálf tónlistin – andrúmsloftið, sagan og framvindan  – var hins vegar fábrotin, því úrvinnsla tónefnisins var svo máttlaus. Hún náði aldrei að verða neitt annað en einfeldningslegar endurtekningar. Strokkvartettinn Siggi spilaði þó ágætlega, flutningurinn var nákvæmur og vel mótaður, en það breytti engu, tónarnir misstu marks hvað eftir annað. Það var eins og efniviðurinn lægi bara í hrúgu án þess að nokkuð væri gert úr honum.

Eitthvað svoleiðis

Næsta verk hét Senza di te, sem þýðir án þín, og var eftir Gunnar Karel Másson. Tónlistin byrjaði á áhrifaríkan máta, sem ofurveikur niður, mjög dularfullur. Smám saman óx hann og varð að fyrstu línunni úr ítalskri aríu. Hún var endurtekin aftur og aftur, með sívaxandi þunga. Þetta var flott, en kaflinn sem á eftir kom, og var eingöngu strengjaplokk, virkaði eins og skrattinn úr sauðaleggnum. Það var eins og ný tónsmíð byrjaði, sem var ekki í neinum tengslum við þá sem á undan hafði verið.

Textinn í tónleikaskránni var ekki hjálplegur, þar mátti lesa að tónlistin væri um einmannaleika og leit eftir einhverju óræðu, sem svo breytist, en samt ekki. Eða eitthvað svoleiðis. Tónlistin var álíka óljós, hún lofaði góðu í byrjun, en restin stóð ekki undir væntingum. Sennilega var það akkúrat meining tónskáldsins, en framsetningin hefði mátt vera sterkari og frumlegri.

Áhrifamikil nostalgía

Miklu meira var varið í hinar tvær tónsmíðarnar sem á eftir komu. Horfnir skógar eftir Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur fjallaði um einmitt það, horfna skóga sem eftir lifa í viðnum í strengjahljóðfærum. Í takt við það var tónlistin nostalgísk, tónskáldið leit um öxl og afraksturinn var í fremur hefðbundnu formi. Hér væri hægt að æpa KLISJUR en svo var ekki. Tónmálið var alltof margbrotið, skáldskapurinn laus við yfirborðsmennsku, innblásturinn of sannur. Þetta var hrífandi tónlist sem unaður var að hlýða á.

Síðasta verkið var líka dálítið gamaldags, Mere-Exposure eftir Sigurð Árna Jónsson. Það hljómaði eilítið eins og gamli seríalisminn, sem var í „tísku“ fyrir hálfri öld eða svo. Áferðin var mjög ómstríð og mikið um þagnir, eins og sífellt væri verið að hrópa út í tómið, án svars. Þetta var ekki beint skemmtilegt, en arkítektúrinn var glæsilegur, framvindan spennuþrungin, heildarmyndin trúverðug á einhvern undarlegan hátt, furðulegt nokk.

Niðurstaða:

Misáhugaverð tónlist, sem var ágætlega flutt.

Leave a comment