Upphaf fagurrar vináttu í Hörpu

Tónlist

4 stjörnur

Korda Samfónía flutti eigin tónlist undir stjórn Sigrúnar Sævarsdóttur-Griffiths.

Eldborg í Hörpu

föstudaginn 21. maí

Hvernig nær maður sambandi við geimverur? Sennilega með tónlistarmiðlun. Best er að senda þeim lagalista og bjóða þeim í partí til Jarðarinnar. Þetta var a.m.k. gert árið 1977. Síðla sumars var tveimur ómönnuðum geimförum skotið á loft og hvort um sig innihélt gullplötu með lagalistum. Tónlistin var fjölbreytt, sekkjapípuleikur, panflautur, áströlsk frumbyggjatónlist, Bach, Mozart, Chuck Berry og margt fleira. Markmiðið var að fá geimverur, sem myndu rekast á förin, til að átta sig á menningarstigi mannkyns með því að heyra tónlist Jarðar. Það gæti orðið byrjunin á „fagurri vináttu“ eins og það er kallað í kvikmyndinni Casablanca.

Allskonar fólk spilaði og söng

Ég hugsa að skapandi tónlistarmiðlun, samstarf 35 einstaklinga sem tróðu upp í fyrsta skipti í Hörpu á föstudagskvöldið, hafi líka verið upphaf fagurrar vináttu. Þarna var býsna ólíkur hópur hljóðfæraleikara úr Sinfóníuhljómsveit Íslands, tónlistarnemendur, spilarar úr poppgeiranum, sem og skjólstæðingar Hugarafls og Starfsendurhæfingarstöðva Vesturlands, Hafnarfjarðar og Suðurnesja. Tilgangurinn var að virkja fólkið til að semja sína eigin tónlist saman, og frumflytja hana. Ekki skipti máli þátt einhverjir kynnu alls ekki á hljóðfæri, það var alltaf eitthvað hægt að finna til að gera; söngur, bakraddir, hristur, ásláttarhljóðfæri, o.s.frv.

Hljómsveitin kallaði sig Korda Samfóníu og laut stjórn Sigrúnar Sævarsdóttur-Griffiths. Tónleikarnir voru um klukkustundar langir og voru skemmtilegir. Nokkur löng verk voru flutt sem voru margbrotin og miðluðu mismunandi tilfinningum. Þau höfðu öll verið samin af hópnum á aðeins tíu dögum. Óhjákvæmilega var áferðin dálítið hrá, söngurinn óheflaður, samhljómurinn grófur. En það var bara ekki málið. Virkni þeirra sem klást við kulnun og ýmiss konar krísur vóg þyngst hér, og útkoman var ótrúlega fögur.

Popp og framúrstefna

Fáein smáverk voru einnig á dagskránni, sem voru tilraunakennd og skörtuðu mörgum góðum hugmyndum. Tónleikarnir buðu því upp á bæði hefðbundna popptónlist sem byggðist mjög á endurtekningum, en líka skemmtilega framúrstefnu, og allt þar á milli. Best var leik- og sönggleðin sem var smitandi, og æ meira eftir því sem á leið.

Skapandi tónlistarmiðlun hefur verið hér við lýði um allnokkurt skeið. Það má rekja til námskeiðs sem Peter Renshaw og Paul Griffiths frá Guildhall listaháskólanum í London héldu á vegum Tónlistarskólans í Reykjavík. Á námskeiðunum fengu þeir nemendur til semja nýja tónlist á staðnum og áheyrendur til að leika á einföld slagverkshljóðfæri eða syngja. Markmiðið var að losa um sköpunarmátt nemendanna, og að tengja saman huga og hönd. Námskeiðið heppnaðist svo vel að það varð að föstum lið og nánu samstarfi á milli skólanna. Vonandi mun Korda Samfónía líka lifa um ókomna tíð.

Niðurstaða:

Óvanalegir tónleikar sem voru skemmtilegir.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s