
3 og hálf stjarna
Verk eftir Thierru Escaich og Nino Rota. Kammersveit Reykjavíkur lék.
Norðurljós í Hörpu
þriðjudaginn 1. júní
Einu sinni þegar heimurinn var ungur var Adam úti að skemmta sér. Eva var heima. Þegar Adam kom til baka var hún reið. „Þú ert farinn að vera með öðrum konum, fíflið þitt“, sagði hún. Hann svaraði: „Ertu eitthvað skrýtin? Þú ert eina konan á jörðinni.“ Rifrildið hélt áfram uns Adam sofnaði. Um nóttina vaknaði hann við að einhver var að pota hann í bringuna. Það var Eva. Adam spurði hana hvað hún væri að gera. „Ég er að telja á þér rifbeinin.“
Líklega er þetta elsta fjölskyldurifrildi sögunnar. En ekkert breytist. Maður segir tiltekinn hlut og aðrir bregðast við, fólk er ekki sammála. Tónlistin á tónleikum Kammersveitar Reykjavíkur var alveg eins og rifrildi, lítill hópur hljóðfæraleikara reifst og skammaðist hver við annan. Ég gat a.m.k. ekki túlkað það öðruvísi.
Gaf leiðinlegt í skyn
Þetta byrjaði sakleysislega. Píanóleikarinn spilaði einfalda laghendingu, sem gaf samt eitthvað leiðinlegt í skyn. Aðrir tóku því illa. Fyrst bara með liggjandi undirtónum, en svo æstust leikar. Alls konar laglínur voru þvers og kruss, og rafmagnaður taktur skapaði enn meiri spennu.
Tónlistin var ekki leiðinleg. Hún nefndist Mechanic Piano og var fyrir píanó og blásarakvintett. Höfundur hennar var hinn franski Thierry Escaich, en hann er eitt þekktasta samtímatónskáld Frakklands. Hann er framúrskarandi organisti að auki, og hefur meira að segja komið hingað til tónleikahalds.
Verkið var vel flutt. Samspilið var hárnákvæmt og hröð tónahlaup voru yfirleitt lýtalaus. Krafturinn í túlkuninni var áþreifanlegur og stígandin prýðilega útfærð. Hver tónn var þrunginn merkingu.
Aðallega klisjur
Hin tónsmíðin á tónleikunum orkaði meira tvímælis. Þetta var Nonetto fyrir blásarakvintett og fjóra strengjaleikara eftir Nino Rota. Hann er þekktastur fyrir kvikmyndatónlistina sína, og þá sérstaklega myndirnar um Guðföðurinn. Stefin hans í myndunum eru einstaklega grípandi, en hér voru þau aðallega klisjur. Form tónlistarnnar var hefðbundin nýklassík, og þrátt fyrir fimm kafla gerðist fátt sem maður hefur ekki heyrt þúsund sinnum áður. Tilfinningin var eins og að koma í skranbúð sem lyktar af líkamsvessum gamalla karla.
Tónlistin var samt ágætlega spiluð. Hún var vissulega margbrotin og Kammersveitin var með allt sitt á hreinu. Hraðar hendingar voru nákvæmar og hnitmiðaðar. Leikurinn í heild var akkúrat og samtaka. Túlkunin var lifandi og full af ákafa, en því miður dugði það ekki til að gera tónlistina spennandi.
Niðurstaða:
Góður flutningur, en tónlistin var misáhugaverð.
Takk fyrir að deila svona ótrúlegu bloggi.