Óbrjálaðir hljóðfæraleikarar sem vönduðu sig

4 stjörnur

Verk eftir Debussy, Webern, Postumi, Cage og Strauss. Pétur Björnsson lék á fiðlu, Elena Postumi á píanó.

Norðurljós í Hörpu

sunnudaginn 6. júní

Einu sinni í Lundúnum var verið að flytja tríó eftir Anton Webern, þegar sellóleikarinn varð skyndilega brjálaður. Hann hætti að spila, stökk á fætur og æpti: „Ég þoli þetta ekki lengur!“ Atvikið vakti mikla athygli. Það varð að heitum umræðum á opinberum vettvangi um réttindi flytjenda til að ritskoða tónlist, og hafna að vild.

Verk Weberns eru mjög flókin, og byggja á tækni sem aldrei hefur náð vinsældum meðal almennings. Þar hefur hver einasti tónn sína merkingu, þeir eru ekki endilega bara hluti af melódíu. Tónarnir verða því að vera sérstaklega vel mótaðir. Heildaráferðin er ómstríð, og þannig tónlist er ekki fyrir hvern sem er. Þau eru afar krefjandi fyrir flytjendur, og ekki síður áheyrendur. 

Voru stillt og þæg

Sinfóníuhljómsveit Íslands, svo dæmi sé tekið, neyðist til að flytja allt mögulegt. Ég er viss um að mörgum hljóðfæraleikaranum hefur oft langað til að standa upp og öskra á tónleikum. En Pétur Björnsson fiðluleikari og Elena Postumi píanóleikari voru einkar stillt og þæg þegar þau spiluðu fjögur stykki op. 7 eftir Webern í Hörpu á sunnudaginn. Tónlistin var vissulega ómstríð og spúkí, en hún var líka mjög stutt. Hvert stykki var eiginlega búið áður en það byrjaði, ef svo má segja. Tónarnir voru fágaðir og vel tímasettir, útkoman var furðu áheyrileg. Þarna var alveg óþarfi að stökkva upp og grenja.

‘Nokúrna eftir John Cage kom líka á óvart fyrir það hve hún var látlaus. Cage samdi ótrúlegar tónsmíðar, og sú frægasta samanstendur eingöngu af þögn. Noktúrnan hér var hins vegar gædd fallegum laghendingum sem þau Pétur og Elena útfærðu af smekkvísi í hvívetna.

Loftið fylltist af litum

Sónatan eftir Debussy var jafnframt falleg hjá hljóðfæraleikurunum. Allskonar litbrigði voru hrífandi, framvindan í tónlistinni var skáldleg og grípandi. Loftið allt í kring fylltist af litum. Pétur sýndi þarna einstaklega gott vald á fiðlunni. Bæði var bogatæknin fullkomin og fingraspilið lipurt og skýrt. Fiðlan sjálf sem hann spilaði á var líka frábær. Tónsviðið samsvaraði sér vel, og efstu tónarnir voru alveg lausir við að vera sárir, eins og stundum vill gerast þegar fiðlan er annars vegar.

Elena spilaði einnig ágætlega. Tónmyndun hennar heilt yfir var vönduð og hófstillt, sem kom reyndar aðeins að sök í sónötunni op. 18 eftir Richard Strauss. Hún leið stundum fyrir skort á snerpu í píanóleiknum. Þetta er fallegt verk sem minnir töluvert á Brhams. Í henni er heillandi náttúrustemning, og sterk rómantík sem kemur augljóslega frá hjartanu. Pétur lék hana af kostgæfni, tæknin var áreynslulaus, túlkunin þrungin allskonar tilfinningum. Píanóleikurinn var líka góður, en hefði mátt vera kröftugri eins og fyrr segir.

Loks ber að nefna verk eftir píanóleikarann sjálfan, Canto notturno, sem var gædd skemmtilegri dulúð og spennandi stígandi, og byggðist fyrst og fremst upp á fínlegum blæbrigðum sem skiluðu sér prýðilega á tónleikunum. Þetta var glæsileg dagskrá.

Niðurstaða:

Flottir tónleikar með fallegri tónlist sem var yfirleitt frábærlega flutt.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s