
3 og hálf stjarna
Kórinn Viðlag sög lög úr ýmsum áttum. Tónlistarstjórn, kórstjórn, undirleikur og píanóleikur: Axel Ingi Árnason. Leikstjórn: Agnes Wild.
Gaflaraleikhúsið
þriðjudaginn 8. júní
Íslenskur grínisti sagði einu sinni að fúga væri það þegar hljóðfærin koma inn eitt og eitt í einu, og áheyrendur fara út einn og einn í einu. Meistari fúgunnar var Bach, en margir aðrir hafa spreytt sig á að semja fúgur, sem eru einskonar keðjusöngur á sterum. Sjálfur Glenn Gould samdi fúgu, sem er sungin. Textinn er húmorískur og fjallar um það að semja fúgu og þau vandamál sem þá koma upp.
Svipuð hugmynd lá til grundvallar óvenjulegra kórtónleika sem voru haldnir í Gaflaraleikhúsinu á þriðjudagskvöldið. Tónlistin var öll úr söngleikjum og Disneymyndum. Textanum hafði þó verið breytt og var um það að stofna kór fyrir söngleikjanörda, um símtöl til efnilegra söngvara, söngprufur, samband stjórnanda og kórmeðlima, rifrildi og meting, en líka kærleika og vináttu.
Ekki sundurlaust
Stjórnandi kórsins var Axel Ingi Árnason, og hann var allt í öllu, spilaði á píanó og sá um tónlistarstjórn. Lögin voru eftir höfunda á borð við Charles Strouse, Alan Menken, Marc Shaiman og marga fleiri. Söngleikjatónlist er í rauninni ósköp keimlík að forminu til, hún hefur ákveðna stígandi, sem birtist í fjölbreyttari hljómagangi en gengur og gerist í poppinu. Stígandin er þó alltaf svipuð, og kemur sjaldnast á óvart. Þetta eru klisjur á klisjur ofan, sem er í fínu lagi, því tónlist þarf ekki alltaf að vera einhver intellektúal rembingur.
Hvert einasta lag var flutt af gríðarlegri innlifun. Þetta voru ekki bara tónleikar, heldur hafði dagskráin á sér söngleikjayfirbragð, með allskonar leikrænum tilþrifum. Þau virkuðu eðlilega undir leikstjórn Agnesar Wild. Agnes og Axel Ingi sömdu einmitt handrit tónleikanna. Sviðshreyfingarnar, sem voru undir stjórn Birnu Björnsdóttur og Katrínar Mistar Haraldsdóttur voru afslapaðar og flæðandi, og heildarmyndin því falleg.
Misgóður söngur
Söngurinn sjálfur var dálítið misjafn. Einsöngsstrófur nokkurra kórmeðlima komu ekki nægilega vel út, en heil einsöngslög sem voru í höndunum á ólíkum söngvurum, voru yfirleitt forkunnarfögur. Kórsöngurinn sjálfur var nokkuð hrár, og hefði þurft að fága meira; stundum var nánast eins og hver syngi með sínu nefi. Inn á milli var hann hins vegar prýðilegur.
Textinn var skondinn og maður skellti upp úr oftar en einu sinni. Hann var rauði þráðurinn í sýningunni, límið sem hélt öllu saman. Stemningin var góð á tónleikunum; þau voru ófá húrrahrópin og blístrin. Í heimildarmynd um þungarokkhljómsveitina Metallica, Some Kind of Monster, kemur fram að hljómsveitin ferðast með geðlækni meðferðis. Hljómsveitarmeðlimir eru búnir að vera svo lengi starfandi að þeir þola ekki hver annan lengur, og þurfa geðlækni til að fúnkera. Sú var örugglega ekki raunin hér.
Niðurstaða:
Skemmtilegir tónleikar með fallegri tónlist.