
2 stjörnur
Verk eftir Þuríði Jónsdóttur og Brahms. Einleikari: Una Sveinbjarnardóttir. Stjórnandi: Daníel Bjarnason.
Eldborg í Hörpu
fimmtudaginn 10. júní
Ég sá einu sinni auglýsingu þar sem sýnt var frá eldgosi. Undir var leikinn hægi kaflinn í sjöundu sinfóníu Beethovens, sem var mjög áhrifaríkt. Eldgos spilaði líka stóra rullu í nýjum fiðlukonsert eftir Þuríði Jónsdóttur, sem var frumfluttur á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið. Hljóðin í eldgosinu í Geldingadölum höfðu verið tekin upp og voru spiluð undir lok verksins. Óneitanlega var það magnað. Hins vegar var upptakan það besta við verkið, því tónlistin sjálf vakti upp spurningar.
Eins og annað eftir Þuríði var músíkin mjög ómstríð. Laglínurnar sem einleikarinn, Una Sveinbjarnardóttir, lék, voru fráhrindandi. Verkið var hægferðugt í byrjun og hljómsveitarröddin samanstóð aðallega af höggum, braki og brestum. Konsertinn nefndist Leikslok, og samkvæmt kynni tónleikanna var hann hugleiðing um heimsendi. Miðað við stemninguna í tónlistinni var ekki mikil von í henni.
Árekstrar einleiks og hljómsveitar
Þegar á leið fór andrúmsloftið að verða ákafara, en það var einmitt þar sem rithátturinn vakti upp spurningar. Tónsvið fiðlunnar lenti í árekstrum við heildarhljóm hljómsveitarinnar hvað eftir annað, og þó mikið gengi á í einleiksröddinni, skilaði það sér ekki almennilega til áheyrenda.
Una spilaði samt vel, leikur hennar var vandvirknislegur og kröftugur. Í einleikskonsert á hins vegar að heyrast í einleikshljóðfærinu, sem það ekki gerði hér nema að takmörkuðu leyti. Ýmiss konar effektar sem tónskáldið lét Unu framkvæma á fiðluna virkuðu því tilgangslausir.
Hér getur verið að hljómsveitin hafi hreinlega spilað of sterkt. Sennilega hljómar konsertinn betur á upptöku þar sem hægt er að stjórna styrkleikahlutföllunum til fulls.
Almennt talað var verkið ekki með öllu slæmt, þar voru vissulega áhugaverðir hljómar og blæbrigði sem voru skemmtilega annarleg. En þau náðu bara ekki að skapa sannfærandi heild.
Leiðinleg sinfónía
Hin tónsmíðin á dagskránni var sinfónía nr. 2 eftir Brahms. Hún var klén undir skringilega andlausri stjórn Daníels Bjarnasonar. Hljómsveitin spilaði samt ágætlega tæknilega séð, nema að málmblásturinn var á köflum óhreinn. Í það heila voru styrkleikahlutföllin ekki nægilega fáguð og innlifunin í túlkuninni var ekki fyrir hendi. Bara hreint ekki.
Hljómsveitin flutti þessa sinfóníu líka fyrr í vetur, en þá undir stjórn Evu Ollikainen. Himinn og haf skilja þessar tvær túlkanir að. Flutningurinn þá var snilld, en hér var eins og enginn nennti því sem hann var að gera, kannski vegna þess að sumarfríið er handan við hornið. Hvílík leiðindi.
Niðurstaða:
Lokatónleikar Sinfóníunnar á starfsárinu ollu vonbrigðum.