
4 stjörnur
Tónlist eftir tónskáld við Miðjarðarhafið. Flytjendur: Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, Alexander Jarl Þorsteinsson, Francisco Javier Jáuregui og Pétur Jónasson.
Hafnarborg
miðvikudaginn 30. júní
Ég er með Apple úr og í því er app sem mælir hljóðstyrk. Að gamni mínu kveikti ég á appinu á tónleikum á Sönghátíð í Hafnarborg á miðvikudagskvöldið. Þar var nefnilega sérlega raddsterkur söngvari, Alexander Jarl Þorsteinsson tenór. Ég sat næstum því aftast, en samt mældi appið raddstyrk Alexanders, þegar hann var á efstu tónunum í laginu fræga, O sole mio, hvorki meira né minna en 88 desíbel. Jú, rokktónleikar fara upp í 120, en þá eru líka græjur í botni. Þetta var órafmagnaður söngur. Áheyrendur á fremstu bekkjum áttu alla samúð skilið, hávaðinn þar hlýtur að hafa verið ægilegur.
Raddstyrkurinn var rúmlegum tíu stigum meira en hinn söngvari kvöldsins, Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir mezzósópran. Samt söng hún ekkert lágt. Hljómburðurinn var líka ágætur, bergmálið hæfilegt, og meira að segja gítar barst vel á öftustu bekki.
Hrífandi söngur
Yfirskrift tónleikanna var Söngvar frá Miðjarðarhafinu. Guðrún Jóhanna hóf dagskrána með þjóðlaginu Que ne suis-je fougere í útsetningu Guillaume P. A. Gatayes, og var söngur hennar sérlega hrífandi. Túlkun hennar var full af innlifun, lifandi og skemmtileg; röddin tær og falleg.
Með Guðrúnu spilaði Francisco Javier Jáuregui á gítar. Leikur hans var léttur og kraftmikill, og fallega ómþýður og ljóðrænn þegar við átti.
Sömu sögu er að segja um næstu lögin á efnisskránni, en þau voru eftir höfunda sem eru nánast óþekktir í íslensku tónleikalífi. Meira að segja lögin sem tenórinn knái söng fyrst, og hárið á konunum á fremsta bekk sveiflaðist til og frá, voru ekki einhver týpísk tenórmúsík. Þau voru eftir Federico Moreno Torroba, sem var uppi á öldinni sem leið. Lögin voru þó ekki í ómstríðum stíl eins og svo oft viðgekkst þá, og tíðkast svo sem enn. Nei, þau voru ljúf og þægileg áheyrnar. Söngurinn sjálfur var hins vegar risastór. Rödd Alexanders er voldug og einstaklega kröftug, en líka afar fögur. Túlkun hans var jafnframt sannfærandi, einlæg og grípandi. Hann er magnaður söngvari.
Til heiðurs Debussy
Gítarleikarinn fyrrgreindi, Javier Jáuregui, var í lykilhlutverki á tónleikunum. Hann sá um meðleikinn, en ekki píanóleikari eins og vaninn er. Jáuregui lék líka einleik í verki eftir Manuel de Falla, Homenaje, til heiðurs Debussy. Spilamennskan var vönduð og vel mótuð. Tónlistin var margslungin og óljós. Heildarútkoman var ekki beint hrífandi, en hún var athyglisverð; tónmálið kom ávallt á óvart.
Annar gítarleikari steig einnig á svið á tónleikunum, Pétur Jónasson. Þeir Jáuregui frumfluttu útsetningu hins síðarnefnda á þjóðvísum eftir de Falla, fyrir tvo gítara og söngrödd Guðrúnar Jóhönnu. Útsetningin var hugvitsamleg og lifandi, en maður saknaði eins lagsins úr lagaflokknum (Siete canciones populares españolas). Það er hressasta lagið; skrýtið að það skyldi ekki fá að vera með.
Í heild voru þetta glæsilegir tónleikar. Söngurinn var sjarmerandi, og kynningar söngvaranna voru oft fyndnar. Dagskráin var auk þess forvitnileg; eins og áður sagði var margt sem bar fyrir eyru afar sjaldgæft hér á landi. Það var svo sannarlega gaman.
Niðurstaða:
Flottir tónleikar með fínum tónlistarflutningi og krassandi músík.