
5 stjörnur
Tónlist eftir Bach og Händel, og úr íslenskum sönghandritum frá barokktímanum.
Flytjendur: Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, Benedikt Kristjánsson, Pétur Björnsson, Halldór Bjarki Arnarson og Siguður Halldórsson.
Hafnarborg
laugardaginn 3. júlí
Þeir sem reyna að breiða út Innhverfa íhugun og kenningar Maharishi Mahesh Yogi monta sig gjarnan af ótal vísindarannsóknum. Á öllum svæðum í heila iðkenda á meðan þeir stunda íhugunina eru alfabylgjur ráðandi. Það merkir að heilinn er slakur og einbeittur í senn.
Sömu niðurstöðu, eða svipaða, má fá með því að hlusta á barokktónlist. Hún var samin á tímabilinu 1600-1750. Geislafræðingur nokkur, dr. Mohiuddin, gerði eitt sinn rannsókn á þessu. Hann lét alla deildina á spítalanum hlusta á barokktónlist í heyrnartólum á meðan þeir stunduðu vinnu sína. Niðurstaðan var afgerandi: Afköst jukust og mönnum leið almennt betur, því þeir urðu svo rólegir.
Fleiri rannsóknir hafa verið gerðar, sem sýna að barokktónlist er sérstaklega góð fyrir hverskyns heimalærdóm, fólk verður einbeittara, en samt friðsælla, og árangurinn er í takt við það.
Hin indæla ró
Yfirskriftin á tónleikum á Sönghátíð í Hafnarborg á laugardaginn var helguð barokktónlist og bar yfirskriftina Indæla ró. Þarna var tónlist eftir Bach og Händel, en ekki bara það. Inn á milli voru sálmar og lög úr íslenskum sönghandritum frá sama tíma. Menningarlífið á Íslandi var nefnilega blómlegra en margir halda og það kom skýrt fram hér. Heyra mátti úr kvæðabók Ólafs Jónssonar á Söndum, úr handritunum Hymnodiu Sacra og Melódíu, úr Maríusöngvum sr. Daða Halldórssonar og fleiru. Allt var það forkunnarfögur músík. Maður fann alfabylgurnar nánast flæða út um eyrun á tónleikunum.
Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir og Benedikt Kristjánsson sungu og gerðu vel. Sú fyrrnefnda var í prýðilegu formi. Hún söng af alúð og innileika, röddin var tær og öguð. Agi og formfesta er einmitt einkenni barokktónlistar, en samt er hún líka svo lifandi. Hún er því sjaldan leiðinleg, nema auðvitað þegar hún er illa flutt, sem var ekki uppi á teningnum hér.
Buxnahlutverk
Guðrún brá sér m.a. í svokallað buxnahlutverk. Það var í Cara speme úr óperunni Júlíus Sesar eftir Händel. Buxnahlutverk er það þegar kona er í hlutverki karls. Sjónrænt séð var það ekkert sérstaklega sannfærandi, því Guðrún Jóhanna var í flottum kjól. Söngurinn sjálfur var þó vissulega glæsilegur, löðrandi í testósteróni. Söngkonan getur greinilega allt.
Benedikt var líka magnaður. Túlkun hans var í hvívetna öguð og formföst, en samt gædd nauðsynlegri snerpu. Hann skilaði megineinkennum barokktónlistarinnar frábærlega vel til áheyrenda, söng af hástemmdri einlægni og himneskri andakt.
Hljóðfæraleikurinn var góður. Pétur Björnsson lék af snilld á fiðlu, spilamennskan var hófstillt og fallega mótuð. Hann tranaði sér aldrei óþarflega mikið fram, heldur féll leikur hans fullkomlega að heildarmyndinni. Sigurður Halldórsson sellóleikari var líka með sitt á hreinu og Halldór Bjarki Arnarson var pottþéttur á sembalinn og orgelið. Þetta var frábær skemmtun.
Niðurstaða:
Sérlega flott dagskrá þar sem barokktónlist Evrópu blandaðist saman við íslensk lög og sálma frá sama tíma.