
5 stjörnur
Tónlist eftir Beethoven, Mozart, Verdi, Nicolai, Saint-Saens og Donizetti. Fram komu Sigrún Pálmadóttir, hanna Dóra Sturludóttir, Gissur Páll Gissurarson, Oddur Arnþór Jónsson, Kristinn Sigmundsson, Alexander Jarl Þorsteinsson og Guðrún Dalía Salómonsdóttir.
Hafnarborg
sunnudaginn 4. júlí
Beethoven dáði Mozart en sagði samt í bréfi að hann væri stórhneykslaður á hve margt í óperunum hans væri dónalegt. Í þeim er oft sungið um uppáferðir, framhjáhald, kvennabúr og sving. Í Cosi fan tutti er t.d. veðjað á að dyggar eiginkonur verði lauslátar þegar eiginmenn þeirra þykjast vera kallaðir í herinn. Þetta svífur yfir vötnunum í tríóinu Soave sia il vento. Það var eitt af atriðunum á dagskránni á lokatónleikum Sönghátíðar í Hafnarborg á sunnudaginn.
Beethoven var uppsigað við svona atriði, honum fannst að verið væri að draga tónana niður á lágt plan, breyta tónum í dóna. Tónlistin hér var svo sannarlega stórfengleg, hún var svo háleit og fögur að það stakk vissulega í stúf við umfjöllunarefnið. Kannski var Mozart að meina að finna má guðsneistann í öllum hlutum, líka þar sem losti og sviksemi eru við völd. Guð býr í gaddavírnum og galeiðunni, eins og Megas orti.
Í prýðilegu jafnvægi
Óumræðileg fegurð var a.m.k. auðmerkjanleg í söng þeirra Sigrúnar Pálmadóttur sópran, Hönnu Dóru Sturludóttur mezzósópran og Odds Arnþórs Jónssonar bariton. Einnig í píanóleik Guðrúnar Dalíu Salómonsdóttur. Laglínurnar voru smekklega mótaðar, raddirnar himneskar, píanóleikurinn tær og í prýðilegu jafnvægi, bæði innbyrðis og í takt við söngraddirnar. Þetta var frábært.
Meira hneyksli var á dagskránni. Óperan Rigoletto eftir Verdi varð að vera ritskoðuð áður en hún taldist gjaldgeng, eins og Gissur Páll Gissurarson tenór rakti fyrir hláturmildum áheyrendum. Ekki þótti við hæfi að aðallinn, hvað þá kóngurinn væri sýndur í vafasömu ljósi. Óperan var byggð á leikriti eftir Victor Hugo sem fjallar um hinn fjölþreifna konung Francis I. Leikritið var bannað, en með strangri ritskoðun mátti semja við það óperu. Gissur Páll sagði á undan kvartettinum Bella figlia dell‘amore að hægt væri að greina þar kynferðislegan takt. Fyrir bragðið tókst honum að eyðileggja upplifunina, því maður heyrði náttúrulega ekkert annað.
Desíbel við hættumörkin
Í alvöru talað þá voru þetta bráðskemmtilegir tónleikar. Eitt magnaðasta atriðið var sérlega langur og efnismikill dúett úr Don Carlo eftir Verdi. Hann var í höndunum á Kristni Sigmundssyni bassa og Oddi Arnþóri. Mikið drama var í frásögninni og hápunktarnir brjálæðislegir. Píanóleikurinn var líka pottþéttur, en Guðrún Dalía klikkaði ekki hér frekar en annars staðar. Leikur hennar var líflegur og fjölbreyttur, einkar litríkur og spennandi, en aldrei á kostnað nákvæmninnar.
Ég sagði frá því í dómi nýlega að ég væri með app í úrinu mínu sem mældi hljóðstyrk. Lokaatriðið á tónleikunum var sextettinn úr Lucia di Lammermoor eftir Donizetti. Þar bættist Alexander Jarl Þorsteinsson tenór í hópinn. Sungið var með þrumuraust. Ég sat heldur aftarlega, en þrátt fyrir það var appið alltaf að vara mig við. Hættulegt heyrninni væri að vera lengi í þessum hljóðstyrk, sem var yfir 90 desíbel. Guðni forseti sat á fremsta bekk; hann virtist vera fölur á svipinn.
Niðurstaða:
Bráðskemmtilegir tónleikar með flottri tónlist og dásamlegum söng.