Söngur og kæfisvefn

Leikaraferill minn er misheppnaður.

Dag einn hringdi Grímur Hákonarson kvikmyndagerðarmaður í mig og bauð mér hlutverk í mynd sem hann var að gera og nefndist Hrútar. Hann hafði séð mig spila á tölvu á raftónlistarhátíðinni Extreme Chill og fannst ég tilvalinn í hlutverk nokkuð undarlegs prests.

Um var að ræða tvær senur;  jarðarför og jólamessu. Í þeirri síðarnefndu voru aðeins tveir viðstaddir, presturinn og bóndi. Presturinn – ég – átti að tóna „Drottinn miskunna þú oss, Kristur miskunna þú oss“ við undirleik tölvu, sem var á altarinu.

Jarðarförin heppnaðist ágætlega, en jólamessan ekki. Fyrir það fyrsta leið mér ekki vel í hvítum hátíðarprestsskrúða sem gerði mig óþarflega feitan. Svo var söngurinn herfilegur, enda hef ég aldrei farið í söngtíma. Kórsöngur í barnaskóla gerði mig fráhverfan því að syngja á fullorðinsárunum. Sjálfstraustið út af prestskrúðanum var heldur ekki mikið. Mér leið eins og risastórri, syngjandi kókosbollu.

Grímur leikstjóri var flóttalegur á svipinn eftir tökurnar, sem voru allt of margar. Ekki kom mér á óvart, einhverjum vikum síðar, þegar hann tilkynnti mér að senan hefði verið klippt út úr myndinni. 

Loksins farinn að æfa mig

Mörgum finnst það skrýtið þegar ég viðurkenni að ég sé lélegur söngvari. Er ég ekki tónlistarmaður? Og er ég ekki gagnrýnandi? Ég bendi þá á að það er einmitt út af því að ég er gagnrýnandi að ég veit að ég er skelfilegur söngvari. Ég hef vit á svona málum.

Nema það að upp á síðkastið hef ég verið að æfa mig í að syngja. Mér finnst ferlega aumt að mæma alltaf þegar aðrir eru að syngja í kringum mig. Ég nenni ekki lengur að láta mér líða illa yfir því. Svo núna syng ég eitthvað á hverjum degi.

Ég er ekki frá því að mér hafi aðeins farið fram. Röddin mín er farin að hljóma öðruvísi. Og hið undarlega hefur gerst að ég er farinn að hrjóta minna. Ég nefnilega hrýt ógurlega, en það virðist vera að lagast.

Söngæfingar gegn hrotum

Þegar betur er að gáð er það þó ekkert undarlegt. Kórstjóri nokkur að nafni Alise Ojay, átti við svona vandamál að stríða, en maðurinn hennar hraut hátt, og ekki bara það, hann öskraði. Næturnar voru eins og ópera eftir Wagner. Alise fékk hann til að hefja raddþjálfun, sem fólst í söngæfingum. Æfingarnar þjálfuðu hálsvöðvana, sem í venjulegu fólki eru slappir og máttlausir. Hjá mörgum slakna þeir of mikið í svefni, og geta valdið hrotum.

Vissulega er margt annað sem spilar inn í og orsakar hrotur og/eða kæfisvefn. Meðal annars er það offita, þ.e. feitur háls, sem þrýstir of mikið á öndunarveginn í liggjandi stöðu. Þannig hindrast, eða lokast alveg fyrir loftflæðið. Áfengi og róandi lyf gera svo ástandið enn verra.

Tilraun sem heppnaðist

Alise vissi hvað hún söng. Hún hafði þegar rannsakað mátt söngæfinganna, hafði mótað þær ásamt prófessor við háskólann í Exeter. Saman gerðu þau tilraun. Hún var þannig að tuttugu sjálfboðaliðum sem allir hrutu mikið var gert að æfa söngæfingarnar í tuttugu mínútur daglega. Hroturnar voru teknar upp í sjö nætur á undan tilrauninni, og í sjö nætur að þremur mánuðum liðnum. Skemmst er frá því að segja að æfingarnar höfðu góð áhrif, en mest reyndar hjá þeim sem ekki voru í yfirþyngd.

Í dag er aðalmeðferðin við kæfisvefni svokallað svefnöndunartæki, sem getur verið töluverð áskorun. Einnig er bitgómur talinn hjálpa. Hann er líka býsna óþægilegur. Hin leiðin er að grenna sig og það gengur sjaldnast vel. Afhverju þá ekki að gera sársaukalausar söngæfingar til að styrkja hálsvöðvana sem í þokkabót hjálpa manni að syngja betur? Ráðið virkaði a.m.k hjá eiginmanninum hennar Alise, og hún fékk loksins svefnfrið.

Hvað mig varðar, þá ætla ég að halda áfram söngæfingunum. Hægt er að kaupa geisladiskasett ásamt leiðbeiningarbæklingi á vefsvæðinu singingforsnorers.com. Nú er bara að skella sér í almennilega raddþjálfun, hrjóta minna og syngja betur. Hver veit nema að ég fái hlutverk hjá Íslensku óperunni í framtíðinni.  

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s