
3 stjörnur
Sönghópurinn Olga söng tónlist úr norðrinu.
Háteigskirkja
miðvikudaginn 4. ágúst
Kona nokkur sendi einu sinni lesendabréf þar sem hún spurði hvernig hægt væri að koma í veg fyrir að rakarastofukvartett syngi. Svarið var einangrunarlímband. Ekki fylgir sögunni hvort konan hafi reynt þetta ráð.
Ekki er heldur alveg á hreinu hvaðan rakarastofukvartettar draga heiti sitt. Það skiptir líka litlu máli. Um er að ræða fjóra karlmenn (eða stundum konur) þar sem einn syngur laglínu og hinir mynda þríhljóma undir. Sönghópurinn Olga flokkast í rauninni undir þetta tónlistform, þótt meðlimir séu fimm en ekki fjórir.
Keimlík eða of flókin
Gallinn við svona sönghóp hefur oft verið sá hve lögin eru keimlík. Fjórir eða fimm karlmenn án undirleiks hafa litla breidd. Raddirnar ná ekki yfir mikið og takmörk eru því fyrir hve útsetningarnar geta verið fjölbreyttar. Sérstaklega ef hljómburðurinn býður ekki upp á slíkt. Á tónleikunum var stundum fallið í þá gryfju að tefla fram alltof knúsuðum raddsetningum. Þær voru með ýmiss konar krúsídúllum og tilþrifum, sem virkuðu tilgerðarlegar. Djasslögin í lok dagskrárinnar voru því miður flest þessu marki brennd.
Þema tónleikanna voru norðurljósin og tónlistin því öll samin hér og þar á hjara veraldar. Hún var m.a. íslensk, eftir Jón Nordal og Valgeir Guðjónsson. Einnig Sibelius, sem var finnskur. Gnægð þjóðlaga úr ýmsum áttum voru auk þess á efnisskránni, misjafnlega útsett. Rétt eins og djasslögin einkenndust útsetningarnar af sniðugheitum sem hittu ekki alltaf í mark. Stundum er minna meira. Látlaus umgjörð hentar oft betur en einhverjar flækjur.
Flottur söngur
Tónleikarnir fóru fram í Háteigskirkju. Hljómburðurinn er góður í kirkjunni, en vegna þess hve útsetningarnar voru íburðarmiklar drukknaði fíngerður raddvefurinn á tíðum í endurómuninni. Engu að síður var vel sungið. Olga samanstendur af tveimur tenór, baritón, bassa og baritón-bassa, og raddir þeirra voru í prýðilegu jafnvægi. Þær voru tærar og þróttmiklar, fókuseraðar og fínar. Samsöngurinn var ávallt þéttur og öruggur. Olga hefur komið fram núna í nokkur sumur, og söngurinn að þessu sinni var með besta móti.
Eitt áhugaverðasta atriðið á tónleikunum hét einfaldlega Aurora, þ.e. norðurljós. Þetta var ekki beinlínis lag, heldur mynduðu raddirnar þykkan hljóm, einskonar drón, sem tók hægum breytingum. Einhverjir meðlimir blístruðu líka, og mynduðu yfirtóna, sem voru fjarskalega fallegir. Þarna skapaðist stemning sem var einstök. Tónlistin hefði þess vegna mátt vera helmingi lengri.
Næsti bær við jóðl
Annað sérkennilegt á tónleikunum var svonefnt jóík, eða yoik. Það er upphaflega tónlistarform sem einkennist af hrópum og köllum og er ættað frá Sömum. Hér var gerð tilraun til að magna upp töfrakennda stemningu, en hjá fínum mönnum í jakkafötum með vasaklúta og í vestum virkaði það eilítið hjákátlega.
Í það heila voru þetta vandaðir tónleikar, en Olga þarf að vanda betur útsetningarnar og reyna ekki að koma að sem flestum nótum á sem skemmstum tíma. Það er áhættusamt og virkar ekki alltaf.
Niðurstaða:
Flottur söngur en misgóðar útsetningar.