Þá mun ég gleðjast og gráta

3 stjörnur

Verk eftir Schumann, Schubert og Brahms. Flytjendur voru Harpa Ósk Björnsdóttir, Jara Hilmarsdóttir, Romain Þór Denuit og Símon Karl Sigurðarson Melsteð.

Kaldalón í Hörpu

miðvikudaginn 11. ágúst

Einu sinni á tónleikum í fínni veislu þar sem ráðherra var meðal gesta gerðist neyðarlegur atburður. Undirleikaranum mistókst að fletta nótnablaði, sem flaug upp í loft og hafnaði svo á gólfinu. Hann kunni ekki lagið utan að og gerði það sem má alls ekki, stoppaði í miðju kafi. Það næsta sem veislugestirnir sáu var afturendinn á honum þegar hann reyndi að veiða nótnablaðið undan píanóinu.

Á tónleikum í Kaldalóni í Hörpu á miðvikudagskvöldin voru flettingarnar hins vegar pottþéttar. Nýjustu tækni var beitt, flettarinn sat í horninu á sviðinu og stjórnaði spjaldtölvu píanóleikarans þaðan. Enginn þurfti að elta nótnablöð um sviðið.

Á dagskránni var aðallega tónlist eftir Robert Schumann, en í lokin var þó flutt verk eftir Franz Schubert. Flytjendur voru allt langt komnir nemendur, þau Harpa Ósk Björnsdóttir sópran, Jara Hilmarsdóttir mezzósópran, Romain Þór Denuit píanóleikari og Símon Karl Sigurðarson Melsteð klarinettuleikari.

Ólgandi og full af lífi

Tónleikarnir báru yfirskriftina Þá mun ég gleðjast og gráta. Meðal annars voru Fantasiestücke op. 73 eftir Schumann á dagskránni, fyrir klarinettu og píanó. Tónlistin var ólgandi og full af lífi, tilfinningarnar ávallt miklar. Schumann þjáðist af geðhvarfasýki og samdi flest verka sinna í geðhæð. Túlkunin hér var sannfærandi, hún var hömlulaus, akkúrat eins og hún átti að vera. Laglínurnar voru fagrar og flæðandi, hástemmdar og innilegar. Tæknilegar hliðar voru fínar, samspilið nákvæmt og gott jafnvægi á milli hljóðfæranna.

Jara stóð sig líka sig vel. Hún söng sex lög úr Ást og ævi konu eftir Schumann. Söngurinn var vandaður og samkvæmt bókinni, en engu að síður var hann dálítið nemendalegur. Jara hefur ekki náð fullum þroska sem listakona, túlkun hennar var of varfærnisleg og meðvituð. En ég minni á að hún er enn að læra og hefur auðheyrilega mikla hæfileika.  

Mögnuð rödd

Harpa sýndi meiri tilþrif í Hirðinum á hamrinum eftir Schubert. Röddin hennar er mögnuð, allskonar stökk upp og niður tónstigann voru glæsileg. Hver einasti tónn var mótaður af kostgæfni. Hröð tónahlaup voru meitluð, jöfn og tær. Raddhljómurinn virkaði þó ögn harður; söngkonan á enn eftir að klæða rödd sína silki, en hún er greinilega bráðefnileg.

Söngkonurnar tvær sungu þrjú lög úr Spænskum söngvaleik eftir Schumann og gerðu það ágætlega. Heildarmyndin var engu að síður nokkuð flöt, það vantaði leikinn í túlkunina. Minnist maður orða tónskáldsins um píanóleik: „Sá sem ekki leikur við píanóið, leikur ekki á það.“ Sama má segja um sönginn. Ef leikurinn er ekki fyrir hendi gerist fátt og svo var því miður hér. Helst var það í aukalagi eftir Brahms, um kappsamar systur, sem samsöngurinn náði flugi. Þar var hann svo sannarlega gneistandi og snarpur.  

Niðurstaða:

Ágætur söngur og hljóðfæraleikur, skemmtileg tónlist.           

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s