Skemmtilegt en skildi lítið eftir

3 stjörnur

Jónas Þórir lék tónlist úr kvikmyndum.

Hallgrímskirkja

laugardaginn 14. ágúst

Björk Guðmundsdóttir samdi tónlistina við Dancer in the Dark. Í myndinni var danssena á brú, en tónlist Bjarkar átti að vera leikin þar undir. Þegar hún sá myndina skömmu fyrir frumsýningu uppgötvaði hún að búið var að klippa tónlistina án hennar leyfis; hún hafði verið stytt um helming. Í ljós kom að brúin, sem var sérstaklega smíðuð fyrir myndina, hafði ekki verið eins löng og upphaflega var planað. Það vantaði víst timbur, sem kom niður á tónlistinni án þess að tónskáldið væri haft með í ráðum.

Þetta er nokkuð lýsandi fyrir stöðu kvikmyndatónskálda. Tónlist í bíómyndum þarf að vera löguð að kvikmyndinni, ekki öfugt. Og tónlistin er talin góð ef áhorfandinn verður ekki var við hana. Hún er yfirleitt í þriðja eða fjórða sæti þegar best lætur.

Væl í sléttuúlfi

Vissulega eru til undantekningar. Þar á meðal er mynd Sergios Leones, The Good, the Bad and the Ugly. Tónlistin er eftir Ennio Morricone. Hún er óvanalega veigamikil og hefur sterkan karakter. Meginstefið er frægt, en það hljómar eins og væl í sléttuúlfi. Það samanstendur að mestu af tveimur nótum með hreinni ferund á milli. 

Á hádegistónleikum í Hallgrímskirkju á laugardaginn spilaði Jónas Þórir þessa músík á stóra Klaisorgelið. Ég man ekki eftir að hafa heyrt hana áður á orgel. Tónleikarnir voru óvanalegir að því leyti að Jónas spilaði bara kvikmyndatónlist í hálftíma án þess að stoppa á milli. Hann hafði búið til heilt verk úr bútum úr kvikmyndatónlist eftir Morricone og John Williams, sem samdi tónlistina við velflestar, ef ekki allar myndir Stevens Spielberg.

Umbreyting hins smágerða

Þetta var dálítið furðulegur gjörningur. Megineinkenni klassískrar tónlistar, og sem aðskilur hana frá popptónlist, er að hún snýst um umbreytingu hins smágerða í hið stóra. Lítil tónahendingin þróast og verður að einhverju meira. Í henni er framvinda, rétt eins og í skáldsögu. Á vissan hátt má segja að hún sé útópísk, því hún felur í sér vonina um að aðstæðurnar núna verði betri í framtíðinni.

Kvikmyndatónlist á borð við þá sem Williams og Morricone sömdu, hefur hins vegar bara á sér yfirbragð klassískrar tónlistar. Engin framvinda er í henni. Framvindan er öll í myndmálinu á skjánum. Þegar hið sjónræna er tekið burt verður ekkert eftir nema innantónmar klisjur. Stefin eru kannski áheyrileg, en þau eru eingöngu á yfirborðinu og fara aldrei neitt.

Verk Jónasar var vissulega haganlega samsett og það var svo sannarlega skemmtilegt. Hann líka spilaði vel. Leikurinn var tær og nákvæmur, raddsetningin  smekkleg og sannfærandi. Engu að síður var tónlistin lítið annað en sundurlaus, holur endurómur úr ótal kvikmyndum. Hún skildi því fátt eftir sig. Maður þráði eitthvað dýpra, sérstaklega þar sem um tónleika í kirkju var um að ræða. Næg er jú yfirborðsmennskan allt í kringum okkur.  

Niðurstaða:

Fínn flutningur haganlega gerðrar kvikmyndatónlistarsyrpu, en skildi lítið eftir sig.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s