
4 stjörnur
GDRN, Bríet, JóiPé x Króli, Logi Pedro, Cell7, Reykjavíkurdætur, Joey Christ, Flóni og Unnsteinn með Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Daníels Bjarnasonar.
Eldborg í Hörpu
fimmtudaginn 19. ágúst
Karlkyns sinfóníuhljóðfæraleikarar eru venjulega í kjólfötum. Siðurinn mun vera frá Viktoríutímabilinu, þegar þjónar klæddust kjólfötum. Þá þótti við hæfi að hljóðfæraleikarar væru í eins fötum, þeir væru jú eins konar þjónar. Dresskóði klassískra hljóðfæraleikara er fyrir vikið mjög staðlaður, og því vekur það ávallt athygli ef einhver klassíkerinn stígur yfir þau mörk. Þetta á t.d. við um píanóleikarann Yuju Wang, sem er ávallt afar sexí í klæðaburði. Hún hefur þurft að verja fatastílinn sinn með kjafti og klóm.
Klæðaburður söngvaranna á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands virkaði sömuleiðis nýstárlegur, enda voru þeir úr poppgeiranum – þar sem allt má. JóiPé og Króli voru á meðal þeirra, og sá síðarnefndi náði að brúa bilið á milli hins hefðbundna og framsækna með því að vera í kjólfatajakka og heimatilbúnum stuttbuxum.
Á forsíðu tónleikaskrárinnar voru líka myndir af mörgum söngvurunum, og þar voru flestir þeirra í kjólfötum, meira að segja rapparinn Cell7, Ragna Kjartansdóttir. Hún var það þó ekki á sjálfum tónleikunum.
Töfrakennd stemning
Dagskráin var skemmtileg. Fyrrnefnda dúóið, JóiPé og Króli, voru fullir af krafti, ærslafengnir og háðslegir. Lögin þeirra, Í átt að tunglinu og Geimvera, voru grípandi. Sömu sögu er að segja um Cell7 sem söng lagið City Lights með mögnuðum tilþrifum. Reykjavíkurdætur, Bríet, Joey Christ, GDRN og fleiri voru jafnframt safarík. Ferskur andi var yfir öllu saman, líf og gleði, sem var smitandi. Þarna voru töfrar, svo mikið var víst.
Hljómsveitin var órafmögnuð, en útsetningarnar voru allar eftir Viktor Orra Árnason, nema hugsanlega forleikurinn (Overture úr Dancer in the Dark) eftir Björk Guðmundsdóttur. Og þó, sú hljómsveitarraddsetning sem ég þekki er bara fyrir strengi, pákur og horn, en hér var leikið á fleiri hljóðfæri. Í öllu falli var útkoman stórbrotin og glæsileg.
Útsetningarnar á öllum lögunum voru smekklegar og ætíð í góðu jafnvægi, áreynslulausar og hnitmiðaðar. Það að klæða svona músík í hljómsveitarbúning er engin smáræðis vinna, en Viktor Orri hefur greinilega unnið hana af fagmennsku.
Daníel Bjarnason stjórnaði og gerði það vel. Leikur hljómsveitarinnar var samtaka og nákvæmur, fyrir bragðið voru flest lögin flott. Efnisskráin var líka skemmtilega fjölbreytt og varla er hægt að hugsa sér að nokkrum hafi leiðst.
Niðurstaða:
Frísklegir tónleikar, afar vel heppnaðir.