Klámvæðing klassískrar tónlistar

Klámvæðing klassískrar tónlistar

Mamma mín var spíritisti en pabbi efahyggjumaður. Trúmál voru því sjaldan rædd við matarborðið og við fórum aldrei í kirkju. Klassísk tónlist var hins vegar dýrkuð, kannski voru þau einskonar trúarbrögð. Hún var hin fullkomna tjáning æðstu fegurðar.

Rithöfundurinn Philip K. Dick, höfundur sagnanna sem myndir á borð við Blade Runner, Total Recall og Minority Report eru byggðar á, dýrkaði Beehoven. Í einni bókinni hans segir hann að Beethoven hafi verið Elía spámaður endurborinn.

Á vissan hátt má segja að klassísk tónlist sé á sömu hillu og trúin á Guð. Hún er forn og grundvallast á allskonar hefðum.

Rétt eins og smágert íkon er tákn fyrir óendanlegan, andlegan veruleika og sakramenti kirkjunnar, brauð og vín, umbreytist í hold og blóð Krists, þá er verður lítil tónahending að einhverju miklu meira í klassískri tónlist.

Stærri tónverk eru yfirleitt smíðuð úr einföldu tónefni sem tónskáldið hefur meðhöndlað á ýmsan hátt. Úr verður framvinda þar sem allt mögulegt kemur fyrir. Lítil hending í sónötu eftir Mozart, kannski bara einn brotinn hljómur, verður oft að stórfenglegri tónlist.

Ekkert gerist í poppinu

Í venjulegu popplagi af þeirri gerðinni sem er spilað á Bylgjunni gerist hinsvegar ekkert; einföld laglína er endurtekin aftur og aftur og hljómagangurinn er sá sami æ ofan í æ. Aðeins ein stemning er ríkjandi og hún varir venjulega í örfáar mínútur.

Auðvitað er ekkert að þessu; ég hlusta oft á þannig músík sjálfur og hef gaman af. En hún ristir ekki djúpt; megnið af henni byggist á klisjum og endurtekningum. Þannig tónlist heyrist gjarnan í Eurovision keppninni og í poppmyndböndunum er hún oftar en ekki ríkulega skreytt klámfengnum tilburðum. Hefur kveðið svo sterkt að því að klámmyndaleikstjórar hafa meira að segja verið fengnir til að leikstýra slíkum myndböndum.

Poppið, rétt eins og klámið, gengur út á æskuna, líkamann og dýrkunina á því nýja. Sumarsmellurinn í ár er hallærislegur eftir nokkra mánuði. Tískan í dag ræður; við höfnum hinu gamla, kannski vegna þess hve við óttumst dauðann.

Tískan er víðsfjarri í klassíkinni

Klassísk tónlist einkennist hinsvegar af innri strúktúr, ekki yfirborði. Og oft eru bestu verk klassískrar tónlistar samin á efri árum þess sem á í hlut. Mestu snilldarverk Beethovens tilheyra síðasta tímabilinu í lífi hans. Sömu sögu er að segja um flest önnur tónskáld. Tískan er víðsfjarri; það er innihaldið sem gildir.

Hingað til hefur stöðnun ekki einkennt form klassískrar tónlist. Eitthvað gerist ávallt í slíkri tónlist. Hún er útópísk og felur í sér vonina um að tilteknar aðstæður geti orðið að einhverju öðru og meira. Eins og fram kom hér að ofan þá verður ein lítil hending oft að stórfenglegri sinfóníu. Allt annað en kyrrstaða ríkir í þannig sinfóníu.

Umbreyting hins líkamlega

Og ekki bara í sinfóníu. Tökum Goldberg tilbrigðin eftir Bach sem dæmi. Þau hefjast á aríu, sem þó er ekki sungin eins og vaninn er með aríur, heldur leikin á sembal. Engu að síður er um söng að ræða, hástemmda sönglínu sem í sjálfu sér er afar fábrotin. En svo taka við um þrjátíu tilbrigði sem ekki nokkur leið væri að syngja.

Þar sem söngur er hin náttúrulega tónlistartjáning líkamans má segja að í Goldbergtilbrigðunum felist umbreyting hins líkamlega (aríunnar) í eitthvað sem er handan líkamans (tilbrigðin).

Við erum meira en hold

Í hnotskurn er þetta trúin á að við séum meira en hold og blóð. Að við séum meira en útlit, nafn og kennitala. Að yfirborð og innra eðli sé ekki endilega það sama. Er það ekki afneitun á hugmyndafræði klámsins?

Saga okkar hefur í aldanna rás einkennst af trúnni á hæfileika mannsins til að sigrast á umhverfinu, auka möguleika sína, verða meira en hann er í dag. Þessa útópísku hugsun er að finna í vísindum og allri list sem stendur undir nafni. Þar á meðal klassískri tónlist.

Klám í stað ástar

Að hafna slíkri tónlist, eða öllu heldur hugsuninni sem einkennir hana, og vilja þess í stað stemningsmúsík þar sem ekkert gerist, er að vilja klám í stað ástar. Hvað er klám annað en það þegar mannslíkaminn er orðinn að hlut þar sem innihaldið skiptir engu máli og allt snýst um yfirborðið?

Þjóðfélagið fyrirlítur klám þegar það er kynferðislegs eðlis, en það dýrkar klámið í öðrum myndum. Við viljum bara yfirborðslega músík sem er þægileg áheyrnar. Hún á að vera notalegt eyrnakonfekt sem skapar réttu stemninguna. Líka klassíkin. Tónlist sem krefst athygli er oftar en ekki afgreidd sem óskiljanleg.

Þetta eru þungar vangaveltur. En mikilvægar. Klassísk tónlist er falleg og hún er innihaldsrík. Hún skiptir máli.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s