
2 og hálf stjarna
Fidelio eftir Beethoven í styttri útgáfu. Leikstjórn og leikgerð: Bjarni Thor Kristinsson. Aðalhlutverk: Guja Sandholt, Dísella Lárusdóttir, Oddur Arnþór Jónsson, Egill Árni Pálsson, Bjarni Thor Kristinsson og Gissur Páll Gissurarson. Tónlistarstjórn: Stefan Sand Groves og Gísli Jóhann Grétarsson. Hljómsveitarstjóri: Stefan Sand Groves.
Norðurljós í Hörpu
fimmtudaginn 26. ágúst
Í kvikmyndinni Eyes Wide Shut með þeim Tom Cruise og Nicole Kidman er fjallað um kynlífsklúbb hinna ríku og voldugu. Lykilorðið til að komast inn í klúbbinn er Fidelio sem merkir trúr. Þetta eru öfugmæli, því enginn er trúr maka sínum í klúbbnum.
Fidelio er einnig nafnið á óperu eftir Beethoven. Hún var sett upp í mjög styttri mynd í Norðurljósasalnum í Hörpu á fimmtudagskvöldið. Ólíkt Eyes Wide Shut er aðalpersónan í óperunni trú manni sínum, en hún bregður sér í dulargervi til að frelsa hann úr fangelsi. Í Eyes Wide Shut eru líka allir dulbúnir í kynlífsklúbbnum, en dulargervið í Fidelio er lítt sannfærandi. Þetta er dæmigert fyrir svo margt sem er fjarstæðukennt í heimi óperunnar. Í La Traviata syngur kona með berkla af þrumuraust alveg fram í andlátið. Í Fidelio – eins og hún var færð upp hér – þurfti aðalpersónan bara að setja á sig húfu til að enginn þekkti hana.
Rýr hljóðfæraleikur
Hljóðfæraleikurinn í Fidelio í sinni upprunalegu mynd er í höndum heillar sinfóníuhljómsveitar, en núna var flutt útsetning fyrir sjö hljóðfæraleikara. Þetta voru tveir píanóleikarar, tveir sellóleikarar, tveir hornleikarar og einn slagverksleikari. Útsetningin var haganlega gerð, nema þegar slagverkið hljómaði eitt og sér, sem var býsna hjáróma. Hljóðfæraleikurinn sjálfur var líka misgóður, sumar tónahendingarnar misstu marks og samspilið var ekki alltaf nákvæmt.
Rýr hljóðfæraleikurinn gerði að verkum að söngurinn náði sjaldnast flugi, enda er hljómsveitarröddin órjúfanlegur hluti af söngnum. Saman mynda þau eina heild og hér varð hún aldrei mjög bitastæð. Söngurinn var þó góður í sjálfu sér. Dísella Lárusdóttir var með allt á hreinu, söngur hennar var fagur og dillandi. Sömu sögu er að segja um Odd Arnþór Jónsson, Egil Árna Pálsson, Bjarna Thor Kristinsson og Gissur Pál Gissurarson.
Nefna verður sérstaklega Guju Sandholt sem var í aðalhlutverki konunnar í dulargervinu. Bæði var söngurinn magnaður, tær og kraftmikill, og svo var leikræn frammistaða einstaklega trúverðug. Hins vegar var fátæklegur búningur hennar ekki beint augnayndi. Sama má segja um búningana í heild, þeir voru hvorki fugl né fiskur.
Grínið aumt yfirklór
Í lok sýningarinnar, en áður en hún var búin, stigu allir skyndilega úr hlutverkum sínum og fóru að hnakkrífast. Sjónum var beint að veikleikum sýningarinnar sem hér hafa m.a. verið taldir upp og þeir sýndir í spaugilegu ljósi. Varpað var ljósi á raunveruleikann að baki uppfærslunni og alls konar vandamál tíunduð.
Skilaboð uppákomunnar voru þau að óperuuppfærsla kostar heilan helling, og að hér var lagt af stað með enga peninga. Markmið sýningarinnar var að hægt væri að upplifa smjörþefinn af Beethoven og hlæja góðlátlega að vanköntunum í leiðinni. Ekki var betur skilið.
Maður átti sem sagt að taka viljann fyrir verkið. Var það skárra en ekkert? Ég veit það ekki. Vissulega má brosa að mörgu í Fidelio, en efni óperunnar, um helgi hjónabandsins, er háalvarlegt. Atriði í henni eru með því fegursta í gervöllum tónbókmenntunum. Þessi fegurð var víðsfjarri hér. Hið fallega var fáránlegt, hið fína ófágað, hið flotta fátæklegt. Í staðinn var boðið upp á skrumskælingu á dýrmætri perlu Beethovens, og mér var satt best að segja ekki skemmt.
Niðurstaða:
Fremur ósannfærandi uppfærsla á Fidelio og kómískur gerningur í lokin náði ekki að breiða yfir vankantana.