Hið sjónræna átti vinninginn

Niðurstaða: Sérlega safaríkir tónleikar.

Klassíkin okkar. Sinfóníuhljómsveit íslands flutti leikhústónlist undir stjórn Daníels Bjarnasonar. Fjöldi einsöngvara kom fram.

Eldborg í Hörpu

föstudagur 3. september

Englendingur, Frakki, Spánverji og Þjóðverji eru í leikhúsi. Leikarinn á sviðinu spyr hvort þeir sjái hann almennilega. Þeir svara: „Yes oui si ja.“

Allir sáust líka vel á tónleikunum á fimmtudagskvöldið, sem báru yfirskriftina Klassíkin okkar og voru helgaðir leikhústónlist. Og auðvitað enn betur í sjónvarpinu, en þar var hljóðið lakara en í Eldborginni. Þannig er það því miður alltaf. Í sjónvarpinu er hljóðið flatt út, sem gerir andstæður í tónlistinni mun máttlausari. Í Eldborginni voru töfrar sem skiluðu sér ekki fyllilega í sjónvarpinu. Lagið Kæru systur úr Saumastofunni eftir Kjartan Ragnarsson var miklu voldugra í lifandi flutningi. Það bókstaflega gneistaði af flytjendunum, þeim Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur, Ólavíu Hrönn Jónsdóttur, Vigdísi Hrefnu Pálsdóttur og Hildi Völu Baldursdóttur.

Einstaklega spennuþrungið

Sömu sögu er að segja um hið undurfagra lag eftir Jóhann Jóhannsson, Odi et Amo, sem Jóna G. Kolbrúnardóttir söng af dásamlegri tilfinningu. Einnig Mambó úr West Side Story eftir Leonard Bernstein. Sinfóníuhljómsveit íslands spilaði þar án söngs undir öruggri og kraftmikilli stjórn Daníels Bjarnasonar. Flutningurinn var svo spennuþrunginn að það var alveg einstakt. Hver einasti hljóðfærahópur var með sitt á hreinu. Þetta var mun flottara en í sjónvarpinu.

Engu að síður verður að segjast að sjónvarpsþátturinn átti vinninginn. Nokkur frábær innslög voru sýnd inn á milli laganna sem við í salnum fengum ekki að njóta. Það var ekki fyrr en nokkuð var liðið á dagskrána að kynnar tónleikanna, þau Halla Oddný Magnúsdóttir og Guðni Tómasson, tóku við sér. Þá sögðu þau okkur áheyrendum hvað kom fram í innslögunum. Þetta hefði mátt gera frá byrjun.

Tónlist samofin leikhúsinu

Maður hefði t.d. viljað heyra það sem Sveinn Einarsson talaði um þegar hann fór yfir sögu leikhústónlistar á Íslandi. Hann benti á að tónlistin er samofin leikhúsinu. Mörg ódauðleg lög á borð við Maístjörnuna eftir Jón Ásgeirsson voru upphaflega samin fyrir leikhús. Við tónlistarunnendur eigum leikhúsinu meira að þakka en við gerum okkur grein fyrir.

Gaman hefði líka verið að heyra Unu Margréti Jónsdóttur fræða áhorfendur um revíuhefðina. Revían var pólitísk ádeila, ríkulega skreytt söng, og var gríðarlega vinsæl. Sumir hafa haldið fram að hún hafi verið Twitter fortíðarinnar.

Of langt mál væri að telja upp allt á efnisskránni. Útsetningar Hrafnkells Orra Egilssonar og Haraldar Vignis Sveinbjörnssonar voru fínar og Sinfónían var pottþétt. Jóhann Sigurðsson fór á kostum í Ef ég væri ríkur. Svipaða sögu er að segja um Elmar Gilbertsson, Kristjönu Stefánsdóttur, Söngsveitina Fílharmóníu og meðlimi úr Auroru og Stúlknakór Reykjavíkur í öðrum lögum. Helst mátti finna að frammistöðu Emilíönu Torrini sem virkaði dálítið fölsk í mín eyru, og söngur Lay Low var ekki heldur sérlega sannfærandi. Kannski passaði dægurlagasöngurinn ekki inn í hið klassíska heildaryfirbragð tónleikanna. Að öðru leyti var þetta glæsileg veisla og aðstandendum til mikils sóma.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s