
Niðurstaða: Afar vandaður geisladiskur með fallegri tónlist.
Geisladiskur
Last Song. Una Sveinbjarnardóttir og Tinna Þorsteinsdóttir.
Sono Luminus.
„Hr. Hundfúll slapp naumlega lifandi frá síðasta lagi fyrir fréttir á Rás 1. Mögulega nær hann sér að fullu eftir þessi ósköp sem Ríkisboxið bauð upp á á fyrsta degi samkomubannsins hér á Fróni en fyrr má nú aldeilis fyrr vera. Hvers vegna er ekki bara boðið upp á Ðe Lónlí Blú Bojs eða Brimkló frekar en þetta alíslenska sargandi garg?“
Þessi bloggfærsla, á Feykir.is, birtist í fyrra og endurspeglar viðhorf margra til tónlistarinnar sem er spiluð í hádeginu í Ríkisútvarpinu. Viðkomandi ætti þá ekki að fá sér nýútkominn geisladisk Unu Sveinbjarnardóttur fiðluleikara og Tinnu Þorsteinsdóttur píanóleikara. Þar er nefnilega að mestu leyti „sargandi garg.“
Fagurt og magnað
Án gríns þá er þetta falleg tónlist. Og stundum mögnuð. Þar á meðal er Anima Processional eftir Hildegard von Bingen, en hún var skyggn nunna á tólftu öld. Hún var ekki lærð í klassískri tónlist, en tókst samt að semja fjölmörg einstaklega hrífandi, seiðandi verk sem hún heyrði og sá í mystískum upplifunum. Útsetningin er nokkuð nýstárleg, bassastrengur í píanóinu virðist vera strokinn fremur en að á hann sé slegið. Þessi djúpi liggjandi tónninn er dáleiðandi og fiðluleikurinn er það einnig. Hann er ákafur og spennuþrungin, og kallar hjá manni löngun til að heyra meira eftir nunnuna.
Andrúmsloftið á geisladiskinum er íhugult og dálítið nostalgískt. Maríulög eftir Atla Heimi Sveinsson eru ljúfsár og Una spilar af fallegri einbeitingu. Tónarnir hennar eru safaríkir en alltaf tærir, mótaðir af einstakri smekkvísi. Tinna spilar líka af gríðarlegri fagmennsku og þegar hún fer út fyrir ramma hins hefðbundna píanóleiks, þá er það sannfærandi. Til dæmis er Vögguvísa Magnúsar Blöndals Jóhannssonar sérlega skemmtileg, en þar leikur Tinna á leikfangapíanó.
Innblásnar hugmyndir
Efnisskráin á geisladiskinum samanstendur af stuttum lögum, með einni undantekningu, sem er Íslensk svíta eftir Jórunni Viðar. Hún er í fimm köflum. Þetta er ekki besta verk Jórunnar, en sérgrein hennar var sönglög, þar sem hún var á heimvelli. Mörg lögin hennar eru dásamleg, en svítan er dálítið einfeldningsleg. Úrvinnsla tónefnisins er aldrei sérlega áhugaverð, hvað þá frumleg, þótt grunnhugmyndirnar séu innblásnar.
Lag eftir Karólínu Eiríksdóttur, Vetur, er hins vegar heillandi. Það er stutt og aðgengilegt, en þó ekki ódýrt. Hljómar píanósins eru töfrandi og einfaldar laghendingar fiðlunnar áleitnar. Heildaráferðin er í senn tregafull en gefur samt fyrirheit um ljós handan ganganna, ef svo má að orði komast.
Lag eftir Unu sjálfa, það síðasta á geisladiskinum, er líka fullt af sterkum tilfinningum og skapar mergjað andrúmsloft.
Einstaka sinnum hefði innlifunin mátt vera meiri, eins og t.d. í hinu yndislega stefi úr Orfeo og Euridice eftir Gluck, sem er óþarflega hratt og dálítið kuldalegt. Hugleiðslan eftir Massenet hefði sömuleiðis mátt vera hástemmdari; hún fer aldrei með mann í ferðalag eins og hún ætti að gera. Engu að síður er þetta fallegur geisladiskur og ég kýs hann hiklaust fram fyrir eitthvert sargandi, æpandi poppgarg.