Beethoven góður en Gubaidulina frábær

Niðurstaða: Einsöngvararnir stóðu sig vel, kórinn var dálítið hrár, hljómsveitin góð nema í lokakaflanum í Beethoven, og Gubaidulina var mögnuð, enda einleikarinn geggjaður.

Beethoven og Gubaidulina á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Eva Ollikainen stjórnaði. Fram komu Hallveig Rúnarsdóttir, Sigríður Ósk Kristjánsdóttir, Elmar Gilbertsson og Jóhann Kristinsson.

Eldborg í Hörpu

fimmtudaginn 16. september

Ég sá nýlega þátt með Barnaby rannsóknarlögreglumanni. Þátturinn heitir The Curse of the Ninth, og fjallar um mann, tónskáld, sem illa fer fyrir. Hann er nýbúinn að semja níundu sinfóníuna sína, en eins og kunnugt er þá hafa mjög mörg tónskáld ekki samið fleiri sinfóníur. Beethoven samdi níu, Bruckner níu, Schubert níu og Dvorák níu. Svo dóu þeir. Að vísu ekki voveiflega.

Níunda sinfónía Beethovens er sú langþekktasta og er orðin að hálfgerðri klisju. Í rauninni er búið að eyðileggja síðasta kaflann með því að klína honum í alls konar óviðeigandi samhengi. Engu að síður hljómaði hann nokkuð ferskur á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið. Eva Ollikainen stjórnaði og einkenndist túlkunin af gríðarlegri innlifun. Fyrsti kaflinn var nokkuð hraður, en fyrir vikið var áfergja í leiknum sem var smitandi. Sömu sögu er að segja um snarpan annan þáttinn, sem var fullur af krafti og ástríðu. Hugleiðslukenndur þriðji kaflinn var svo hástemmdur og þrunginn andakt.

Tveir voldugir kórar

Lokakaflinn með stefinu fræga var í heild flottur. Það var áhrifamikið augnablik þegar tveir fjölmennir kórar, Söngsveitin Fílharmónía og Mótettukórinn, stóðu upp í lokaþættinum og settu sig í stellingar. Kórsöngurinn hefði samt mátt vera fágaðri, hann var eilítið hrár um tíma. Sömu sögu er að segja um hljóðfæraleikinn sem var ögn losaralegur.

Fjórir einsöngvara sungu, hlutverk þeirra mismikilvæg. Karlarnir eiga stærstu rullurnar, konurnar eru meira til fyllingar. Jóhann Kristinsson var frábær í upphafssólóinu. Sömu sögu er að segja um Elmar Gilbertsson sem hljóp í skarðið fyrir veikan Stuart Skelton. Gaman hefði verið að heyra þann magnaða hetjutenór í þessu hlutverki! Samt stóð Elmar sig prýðilega.

Kvenraddirnar komu líka sérlega vel út, Hallveig Rúnarsdóttir sópran og Sigríður Ósk Kristjánsdóttir voru glæsilegar.

Sterkar andstæður

Hitt verkið á efnisskránni var Fachwerk fyrir rússneska takkaharmóníku (bayan), slagverk og strengi eftir Sofiu Gubaidulinu. Einleiki var Geir Draugsvoll. Gubaidulina er tónskáld sem venst með tímanum. Kannski þarf maður að ná ákveðnum aldri til að meta hana. Tónlist hennar er mjög innhverf og það er einhvern veginn ekkert eins og sýnist. Tilfinningarnar eru gefnar í skyn, yfir öllu er trúarleg hugleiðslustemning, sem er samt ekki augljós.

Hryssingslegur hljómurinn í harmóníkunni og fíngerðar, dálítið víraðar strengjahendingarnar, ásamt spúkí slagverki, skapaði sterkar andstæður. Mér er ómögulegt að lýsa tónlistinni að öðru leyti, en tilþrifin hjá einleikaranum voru eftirminnileg. Það var eins og heil hljómsveit væri að spila einleikinn, slík var breiddin í harmóníkuleiknum. Tónlistin var magnþrungin og full af spennu, hvert einasta augnablik var heillandi og óvænt. Ljóst er að Gubaidulina stal senunni af Beethoven um kvöldið.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s