Sem betur fer kviknaði ekki í sellóinu í Eldborg

Niðurstaða: Sellókonsert eftir Dvorák kom misvel út eftir því hvar maður sat, verk eftir Halldór Smárason var klént en konsert eftir Joan Tower var magnaður

Verk eftir Dvorák, Halldór Smárason og Joan Tower. Stjórnandi: Peter Oundjian. Einleikari: Joanthan Swensen

Eldborg í Hörpu

fimmtudaginn 30. september

Í kvikmyndinni The Witches of Eastwick er atriði þar sem sellóleikari, leikinn af Susan Sarandon, er að bisa við að æfa konsertinn eftir Dvorák. Þá kemur djöfullinn í heimsókn, sem er leikinn af Jack Nickolson. Hann hjálpar henni að ná almennilegum tökum á konsertinum með djöfulegum faðmlögum og djöfulegum píanóleik. Við það kemst konan á svo mikið flug að það kviknar í sellóinu. Síðan hefst ákafur ástarleikur.

Þetta var ekki alveg svona á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið. Þar var þessi konsert fluttur og ungur Dani, Jonathan Swensen, lék einleikinn. Hann gerði það af ríkulegri innlifun. Tæknilega séð voru tónarnir fallega mótaðir og breiðir. Ef til vill renndi Swensen sér full mikið á milli tónanna, en það truflaði þó ekki undirritaðan. Í það heila var túlkunin ágætlega mótuð og með sterkri heildarmynd. Atburðarrásin í tónlistinni var spennandi, og flæðið sannfærandi.

Misgreinilegt eftir staðsetningu

Hljómsveitin spilaði ágætlega undir stjórn Peters Oundjian, leikur hljómsveitarinnar var nákvæmur og öruggur. Því miður heyrðist ekki alltaf fyllilega í einleiknum á neðstu svölunum í eldborginni, sellóið er ekki raddsterkt og heil hljómsveit yfirgnæfði það heldur mikið. Engu að síður var tónlistin falleg, full af safaríkum melódíum og lokkandi dramtík. En það kviknaði ekki í sellóinu.

Annað á tónleikunum var misgott. Stutt verk, Infinite Image  eftir Halldór Smárason, var ekki bitastætt. Það mun hafa verið innblásið af ljóði eftir Sigurð Pálsson, Þoku. Ljóðið „hverfist… í kringum mörkin á milli hins sjáanlega og ósjáanlega, hins heyranlega og óheyranlega“ svo vitnað sé í tónleikaskrána. Því miður var tónlistin óskaplega klisjukennd og virkaði eins og stæling á ótal verkum sem voru í tísku innan þröngs hóps á áttunda áratugnum. Hljómarnir voru ómstríðir og mikið af kaótískum hendingum sem virtust ekki hafa neina merkingu, og því síður tilgang. Heildarútkoman var býsna tilgerðarleg.

Mergjaður konsert

Nei, þá var nú meira varið í síðasta verkið á dagskránni, konsert fyrir hljómsveit eftir bandaríska samtímatónskáldið Joan Tower. Heitið vísar til þess að mismunandi hljóðfærahópar eru í einleikshlutverki, þeir kasta rullunni á milli sín, ef svo má segja. Tónmálið var dálítið kuldalegt, og fyrir vikið var músíkin ekki sérlega aðlaðandi. Hins vegar var hún glæsilega raddsett og maður dáðist að öllum fjölbreyttu litbrigðunum sem sköpuðust.

Tónlistin var mjög kröftug. Hvergi var dauður punktur. Eldgos uppsafnaðrar orku braust út með reglulegu millibili, ef svo má segja. Ólíku hljóðfærahóparnir spiluðu krefjandi einleikinn af gríðarlegri fagmennsku. Heildarhljómurinn var þéttur og fókuseraður. Útkoman var mögnuð og endirinn stórfenglegur.  Þetta var flott. 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s