Fjórtán ára sló í gegn á tónleikum

Niðurstaða: Frábærir einleikarar, sérstaka athygli vakti að annar þeirra er aðeins fjórtán ára. Hljómsveitin spilaði mjög vel.

Verk eftir Dmitrí Sjostakovitsj og Richard Strauss.

Einleikarar: Stefán Jón Bernharðsson og Ásta Dóra Finnsdóttir. Stjórnandi: Eva Ollikainen.

Eldborg í Hörpu

miðvikudaginn 6. október

Rússneska tónskáldið Dmitrí Sjostakóvitsj hneigðist til þungyndis. Hann gat þó verið gamansamur inn á milli. Þegar sonur hans Maxim, sem var efnilegur píanóleikari, varð 19 ára gamall samdi Sjostakóvitsj píanókonsert og gaf honum hann í afmælisgjöf. Inn í síðasta kaflann fléttuðust fingraæfingar eftir Charles Louis Hanon, sem uppi var á 19. öld. Sjostakóvitsj sagðist hafa gert þetta svo að Maxim yrði duglegri við að æfa fingraæfingar, sem hann átti til að vanrækja!

Frábær píanókonsert

Konsertinn var á dagskránni á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á miðvikudagskvöldið sem voru í beinni útsendingu á RÚV. Hann er eldfjörugur og er mjög ólíkur flestum verkum eftir tónskáldið; þau eru yfirleitt þungbúin og hrikaleg. Einleikari var Ásta Dóra Finnsdóttir, aðeins fjórtán ára gömul. Hún lék sér að konsertinum. Í honum eru allskonar tónahlaup upp og niður hljómborðið, en inn á milli eru grípandi laglínur. Atburðarásin er yfirleitt hröð og spennuþrungin. Allt þetta hafði Ásta Dóra fullkomlega á valdi sínu. Fingralipurðin var aðdáunarverð og stefin voru mótuð af alúð og smekkvísi. Samspil einleikara og hljómsveitar var prýðilegt, þetta var frábær skemmtun.

Erfitt að vera undrabarn

Undrabörn eru sjaldgæf, þess vegna eru þau kölluð þessu nafni. Slíkir hæfileikar eru vandmeðfarnir. Mikilvægt er að barnið fái að vaxa úr grasi eins eðlilega og frekast er unnt. Það að ná miklum árangri á tónlistarsviðinu byggist ekki bara á hæfileikum og vinnu, heldur líka andlegu jafnvægi. Hið mikla álag er fylgir athyglinni sem undrabarnið óhjákvæmilega fær stuðlar ekki að því, heldur þvert á móti. Af þessum ástæðum er tónlistarsagan full af dæmum um undrabörn sem ekki stóðu undir væntingum. Vonandi ber aðstandendum Ástu Dóru gæfu til að veita henni eins heilbrigt umhverfi og stuðning og mögulegt er.

Glæsilegur hornkonsert

Hitt verkið á dagskránni var hornkonsert nr. 1 eftir Richard Strauss. Hann ólst upp við hornleik, því faðir hans var framúrskarandi hornleikari. Sjaldan launar kálfur ofeldið, eins og sagt er, og Richard samdi fyrir pabba sinn svínslega erfiðan konsert. Hann átti í miklu basli með að valda honum og svitnaði ríkulega við æfingarnar. Einleikarinn núna var Stefán Jón Bernharðsson. Hann spilaði forkunnarfallega. Tónarnir voru hreinir og prýðilega mótaðir. Framvindan í verkinu var sannfærandi og flæðið eðlilegt. Tónlistin ber það með sér að vera æskuverk, Strauss var aðeins nítján ára þegar hann samdi það. Hann var ekki búinn að finna sína eigin rödd þarna, og tónlistin er undir töluverðum áhrif af Mendelssohn.

Hljómsveitin spilaði ágætlega á tónleikunum undir öryggri stjórn Evu Ollikainen. Bæði í konsertunum, og ekki síður í tónaljóðinu Don Juan eftir fyrrnefndan Strauss. Ég verð að segja að hingað til hefur frammistaða hljómsveitarstjórans, ekki bara á þessum tónleikum heldur undanfarna mánuði, verið framar vonum. Það eru einhver heilindi í túlkun hennar sem eru einkar ánægjuleg. Óhætt er að fullyrða að Sinfónían er heppin að hafa hana sem aðalstjórnanda.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s