Í hæstu hæðum

Niðurstaða: Tveir söngljóðabálkar eftir Schumann voru forkunnarfagrir hjá söngvara og píanóleikara, og lög eftir Árna Thorsteinsson voru hrífandi.  

Andri Björn Róbertsson og Ástríður Alda Sigurðardóttir fluttu tónlist eftir Schumann og Árna Thorsteinsson.

Norðurljós í Hörpu

þriðjudaginn 12. október

Geðhvörf einkennast af miklum öfgum í tilfinningalífinu. Þau eru ekki fyndin, en húmorinn léttir samt lífið. Brandarakarl sagði eitt sinn: „Þegar ég var greindur með geðhvörf, þá vissi ég ekki hvort ég átti að hlæja eða gráta.“

Hjá tónskáldinu Róbert Schumann, sem var með geðhvarfasýki, var það hlátur í einhver ár, en svo syrti í alinn. Á meðan allt lék í lyndi samdi hann óteljandi verk, og þau eru mögnuð. Geðhæðin fyllti hann krafti, jafnvel ofskynjunum sem veittu honum innblástur. Eitt sinn sagðist hann hafa heyrt englakór syngja, sem gaf honum hugmyndir að miklu píanóverki. Hann samdi flest verka sinna á ótrúlega stuttu tímabili.

Andri Björn Róbertsson bassabariton var með fókusinn á Schumann á tónleikum hans og Ástríðar Öldu Sigurðardóttur píanóleikaraí Hörpu á þriðjudagskvöldið. Hann flutti tvo söngljóðabálka eftir tónskáldið, en fleygaði þá með lögum eftir Árna Thorsteinsson.

Ástin sem aldrei kom

Fyrri bálkurinn nefndist Liederkreis op. 24 og var við ljóð eftir Heinrich Heine. Tónlistin var hrífandi, þótt ekki væri sérlega bjart yfir henni. Kveðskapurinn fjallaði um ástina hjá manni sem ekki fær hana höndlað. Hann bíður stöðugt eftir henni, en hún kemur aldrei.

Tónlistin einkenndist af safaríkum laglínum og töfrandi hljómum. Andri Björn söng stefin af gríðarlegri innlifun. Röddin var þróttmikil og stór, tæknin aðdáunarverð. Ástríður Alda spilaði af festu, leikur hennar var tær og agaður, en samt gæddur nauðsynlegri snerpu. Þetta var magnað.

Ferköntuð píanórödd

Áhugavert var að bera saman hlutverk píanósins í lögum Schumanns og þeirra sem Árni Thorsteinsson samdi. Í Schumann er píanóleikurinn mótrödd, hann skapar andrúmsloftið sem umvefur sönginn, lyftir honum upp í hæstu hæðir. Hjá Árna er píanóleikurinn miklu ferkantaðri. Þar er hann bara undirleikur.

Sálmurinn Friður á jörðu er þó undantekning. Píanóleikurinn skapar dáleiðandi bylgjuhreyfingu sem söngurinn siglir mjúklega á, svo hann virðist tímalaus.

Burtséð frá hugmyndasnauðum undirleiknum voru lögin eftir Árna falleg, stefin voru innblásin og Andri Björn söng þau af fagmennsku og smitandi einlægni.

Af yfirmáta krafti

Síðari söngljóðabálkurinn eftir Schumann var Liederkreis op. 39. Tónlistin var hér meira grípandi en í fyrri bálknum, stefin krassandi og píanóleikurinn djarfari. Aftur var flutningurinn í fremstu röð. Andri Björn söng stórfenglega, af yfirmáta krafti, en samt af næmri tilfinningu fyrir inntaki hvers ljóðs. Ástríður Alda spilaði af fullkominni kunnáttu og smekkvísi. Saman sköpuðu þau tónaseið sem lengi verður í minnum hafður.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s