Dansandi sinfóníuhljómsveit

Niðurstaða: Magnaður dans og mögnuð tónlist; einstök skemmtun.

Aion eftir Önnu Þorvaldsdóttur og Ernu Ómarsdóttur. Aðstoðardanshöfundur: Lovísa Ósk Gunnarsdóttir. Stjórnandi: Anna-Maria Helsing. Sinfóníuhljómsveit Íslands lék, Íslenski dansflokkurinn dansaði.

Eldborg í Hörpu

fimmtudaginn 21. október

Headbanging + sinfóníuhljómsveit = rugl. Nei, þetta er ekki jafna sem gengur upp. Nema á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið. Hljóðfæraleikararnir sátu ekkert bara prúðir og spiluðu. Þeir dönsuðu á tímabili og tónlistin sem þeir fluttu vakti upp drauga.

Þetta var Aion sem samanstóð af tónlist eftir Önnu Þorvaldsdóttur og dansi eftir Ernu Ómarsdóttur. Aion þýðir eilífð, og verkið mun hafa verið innblásið af hugsun um tímann og ferðalag á milli vídda. Það var svo sannarlega annarsheimslegt.

Tónlistin var mynduð af löngum hljómum og skringilegum tónahendingum, eins og ávallt þegar tónskáldið er annarsvegar. Hljómarnir voru ómstríðir, en fullir af stemningu, myrkir og lokkandi. Þeir kölluðu fram í hugann heim galdra og andatrúar.

Þyngdarlaus dans

Dansinn, sem var eftir Ernu Ómarsdóttur, var framkvæmdur af átta dönsurum úr Íslenska dansflokknum. Fólkið dansaði oftast þétt saman og myndaði þannig alls konar skúlptúra. Dansinn virtist þyngdarlaus, það var eins og skúlptúrarnir svifu um í geimnum. Líkt og tónlistin var dansinn undarlegur.

Í smásögunni The Preserving Machine eftir Philip K. Dick óttast maður nokkur um menningarverðmæti ef ragnarök skyldu verða. Hann býr því til vél sem getur breytt nótnabókum í dýr. Svo sleppir hann þeim út í náttúruna. Þannig vonast hann til að tónlistin lifi af hrun siðmenningarinnar. En úti í náttúrunni breytast dýrin, þau fá klær og vígtennur. Eftir nokkurt skeið fangar maðurinn eitt dýrið. Það hafði áður verið fúga eftir Bach. Hann setur það í vélina og út koma nótur. Þær eru óskiljanlegar og viðbjóðslegar. Náttúran hefur sigrað.

Mér fannst eitthvað svipað gerast í Aion. Tónlistin byrjaði eins og fínt kokteilboð, þar sem allir eru uppstrílaðir og tala yfirborðslega. Byrjun verksins var furðuleg, dansararnir og hljóðfærleikararnir virkuðu áhugalausir. Þegar stjórnandinn, Anna-Maria Helsing, lötraði inn, var nánast eins og hún nennti þessu ekki. Þetta var ekki listafólk fullt af eldmóði, heldur mánudagsmorgunn á skriftstofu Skattsins.

Mögnuð stígandi

Síðan gerðist eitthvað. Dansinn varð meira og meira lifandi, furðuveran sem dansararnir mynduðu fór að læðast inn á svæði hljóðfæraleikaranna. Lífrænn skúlptúrinn vafði sig utan um hljómsveitarstjórann á tímabili; það var falleg stund. Aginn sem einkennir sinfóníuhljómsveit gufaði smám saman upp, og þá byrjaði fyrrnefnt headbanging. Dansararnir sameinuðust hljómsveitinni, samruni hins sjáanlega og heyranlega var alger.

Eins og áður var vikið að einkenndist dansinn af þyngdarleysi. Það smitaðist yfir í hljóðfærin. Eitt magnaðasta augnablikið var þegar þau lyftust öll upp í loft, og eina tónlistin var villtur slagverksleikur.

Smám saman urðu hljóðfærin líka meira og meira partur af dansinum. Þau sameinuðustu skúlptúrnum í lokin. Það var eins og þau hefðu öðlast sjálfstætt líf handan við vald spilaranna. Agi klassíkurinnar var horfinn, eitthvað allt annað hafði tekið yfir. Þetta var orgía náttúrukrafta sem orð fá ekki lýst. Stígandin í tónlist og dansi, frá því að vera áhugalaus og passíf yfir í brjálæðislega raðfullnægingu, var stórfengleg.

Á eftir keyrði ég út úr Hörpu. Fyrir utan sá ég að tunglið var fullt og ég spangólaði.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s