
Niðurstaða: Tónlist Högna Egilssonar virkaði tilgerðarleg á tónleikunum.
Sinfóníuhljómsveit Íslands flutti tónlist eftir Högna Egilsson.
Norðurljós í Hörpu
föstudaginn 5. nóvember
Ég var ekkert sérstaklega hrifinn af Kötlu á Netflix. Þættirnir voru samt frábærlega gerðir, en sagan höfðaði ekki til mín. Tónlistin, sem var eftir Högna Egilsson, var þó prýðisgóð. Hún var full af stemningu, en afar fjölbreytt og gædd skemmtilegri hugmyndaauðgi. Hún var í senn dægurlagakennd, en líka sígild í akademískum skilningi.
Því miður er það svo, að tónlist sem er samin fyrir myndefni, virkar miður vel ein og sér. Þannig var það á föstudagstónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, þar sem eingöngu tónlist eftir Högna var flutt. Meðal annars voru tvö sinfónísk ljóð úr Kötlu á dagskránni. Þau voru mjög drungaleg í takt við sjónvarpsþættina, sem var auðvitað í fínu lagi. Hins vegar var flutningurinn ekkert til að hrópa húrra fyrir.
Óskýr söngur
Hljómsveitin lék að vísu ágætlega undir nákvæmri stjórn Kornilios Michailidis. En söngur Högna var fjarskalega óskýr, þrátt fyrir að hann syngi í míkrófón. Ekki heyrðist orðaskil fyrir hljómsveitinni, sem spilaði býsna sterkt. Það hafði þau áhrif að maður vissi aldrei um hvað Högni var að syngja.
Dapurlegir taktarnir í söngvaranum miðluðu þó því að umfjöllunarefnið var eitthvað ógurlega sorglegt, en óskýr söngurinn gerði heildarmyndina tilgerðarlega. Högni spilaði auk þess á píanó með hljómsveitinni, og hann gerði það svo lágt að sjaldan heyrðist í honum.
Sinfónían komst ekki á flug
Aðalverkið á efnisskránni var samt ekki tónlistin úr Kötlu, heldur sinfónía eftir Högna sem hér var frumflutt. Hún var vegleg eins og sinfónía á að vera. Framvindan í tónlistinni var töluverð og byggðist á ólíkum köflum; einn tók við af öðrum. Sumt var flott, sérstaklega hápunkturinn. Megnið af hljómsveitinni skapaði þá athyglisverða, dálítið draumkennda áferð í kraftmiklum leik.
Engu að síður náði tónsmíðin aldrei alveg að komast á flug. Af hverju ekki? Victor Hugo sagði að tónlist væri um það sem ekki er hægt að koma orðum að, en er samt ekki hægt að þegja yfir. Það var akkúrat þetta sem virtist ábótavant, verk Högna hafði svo lítið að segja.
Ekki málverk, bara teikning
Sinfónían hljómaði ekki eins og hún væri sprottin af innri þörf, heldur að hún væri samin eftir fyrirfram ákveðnu mynstri. Hún var ekki málverk, heldur teikning með tölum sem á að fylla upp í með litum. Tónlistin skildi fátt eftir sig. Í staðin var tilgerð sem var ekki sérlega lystug.
Ég velti því fyrir mér hvort Högna hafi ekki bara langað til að vera meira afstrakt. Tónlistin virkaði einhvern veginn svo. Það var eins og tónskáldið vildi fara í tiltekna átt, en þorði það ekki, því hann var svo hræddur við að þannig yrði tónlistin óskiljanleg. Kannski er Högni einfaldlega of fastur í viðjum dægurtónlistarinnar, þar sem leitast er við að gera sem flestum til hæfis. Helsti gallinn við sinfóníuna var einmitt sá að hún fór hreinlega ekki alla leið.