
Niðurstaða: Stórfengleg spilamennska, sannfærandi túlkun.
Verk eftir Sjostakóvitsj og Tsjajkovskí. Concertgebouw hljómsveitin lék undir stjórn Klaus Mäkelä.
Eldborg í Hörpu
miðvikudaginn 10. nóvember
Mér leið eins og Súperman hefði stigið niður til jarðar á tónleikum Concertgebouw hljómsveitarinnar í Eldborginni í Hörpu á miðvikudagskvöldið. Tilfinningin var sú sama, að sjá ofurmenni í allri sinni dýrð hnykla vöðvana. Samt var tónlistarflutningurinn ekki yfirborðslegur, síður en svo.
Erlendar sinfóníuhljómsveitir eru sjaldheyrðar hér á landi, og því var kærkomið að sjá hana á lifandi tónleikum. Hvílík gleði! Sinfóníuhljómsveit Íslands er vissulega góð, en kemst ekki með tærnar þar sem þessi hefur hælana. Það er bara þannig.
Litríkur og dúnmjúkur
Nokkur af mestu tónskáldunum hafa stjórnað hljómsveitinni í eigin verkum; Igor Stravinskí, Gustav Mahler og Richard Strauss. Einkennandi fyrir sveitina er litríkur og dúnmjúkur hljómur. Dásamlegt var að njóta hans á tónleikunum. Hann kom stöðugt á óvart. Strengirnir voru samtaka, breiðir og fallegir. Og ótrúlegur kraftur í sellóunum og bössunum! Blásararnir voru tærir og skínandi, slagverkið pottþétt, stundum yfirgengilegt.
Fyrra verkið á efnisskránni var sjötta sinfónían eftir Sjostakóvitsj. Hún þykir ákveðin ráðgáta. Við frumflutninginn sagði tónskáldið að hún lýsti vorinu, gleðinni og æskunni. Langur og innhverfur fyrsti kaflinn af þremur virðist þó stangast á við þessa fullyrðingu, þótt síðasti kaflinn sé sannanlega ærslafenginn. Í fyrsta þættinum var áferðin á tíðum óræð, aðeins dularfullur ymur sem lá undir einmannalegum einleik ýmissa hljóðfæra. Framvindan var óvænt hvað eftir annað, maður vissi aldrei hvað kæmi næst.
Fegurð og hryllingur
Hljómsveitarstjórinn, Klaus Mäkelä, var með hlutina á hreinu. Túlkun verksins var grípandi og rafmögnuð. Þarna var fegurð og hryllingur, væntumþykja og hatur, ótti og von, og í lokin hamslaus hamingja. Allt þetta naut sín til fulls í frábærum flutningi. Tæknilega séð var spilamennskan fullkomin, hljómsveitin lék sem einn maður.
Ekki var sjötta sinfónían eftir Tsjajkovskí síðri. Hún er mjög tregafull, byrjar drungalega og endar í algerri kyrrð. Inn á milli eru þó svellandi ástríður. Þar á meðal er einskonar vals í fimmskiptum takti, og næsti kaflinn þar á eftir er afar hraður, gríðarlega kröftugur og glæsilegur. Spilamennskan í öllum köflunum var svo snörp og spennandi, en líka svo einlæg og djúp að maður gleymdi stund og stað.
Já, tónleikarnir voru dásamlegir, fallegir, tærir, skínandi, pottþéttir, yfirgengilegir, óvæntir, ærslafengnir, hamslausir, frábærir, fullkomnir, svellandi, rafmagnaðir, glæsilegir, ótrúlegir og flottir… Þeir bestu á árinu hingað til.