Misjafnlega spennandi Beethoven

Niðurstaða: Flutningurinn á píanóverkum Beethovens var stundum áhugaverður.

Verk eftir Beethoven. Flytjendur: Þóra Kristín Gunnarsdóttir, Peter Maté og Aladar Rácz.

Salurinn í Kópavogi

sunnudagur 14. nóvember

Beethoven var ekki bara heyrnarlaus seinni hluta ævi sinnar, heldur líka afskaplega geðvondur. Nú mætti segja að hann hafi haft ærna ástæðu til. Ekki getur það verið skemmtilegt að vera heyrnarlaust tónskáld. En þetta er flóknara en virðist. Rannsóknir hafa leitt í ljós að Beethoven þjáðist af býeitrun, sem hann fékk vegna ofdrykkju. Vín á þessum tíma var „bragðbætt“ með blýi. Blýeitrun veldur öllum kvillunum sem hann var haldinn af á seinni hluta ævinnar, þ.e.a.s árásargirni, pirringi, lystarleysi, svefnleysi, höfuðverkjum, uppköstum, hægðatregðu og öðru ógeði.

Í stuttu máli sagt: Beethoven hafði það skítt. Og svo var hann alkóhólisti.

Í ljósi þessara aðstæðna verður að segjast að tónlistin hans er kraftaverk. Það er ótrúlegt að sjúklingur hafi samið níundu sinfóníuna, Hammerklavier sónötuna og alla þessa guðdómlegu strengjakvartetta og sónötur. Beethoven var einhver mesti snillingur sögunnar.

Rýr dagskrá

Dapurlegt er því að ekki hafi tekist að halda almennilega upp á 250 ára afmælið hans. Covid gerði út um það. Meðal annars stóð til að íslenskir píanistar, einnig útlendingar sem eru íslenskir ríkisborgarar, myndu flytja allar 32 sónötur tónskáldsins í Salnum í Kópavogi. Það tókst ekki. Einhverjir af þessum tónleikum hafa þó verið haldnir upp á síðkastið, og undirritaður fór á eina slíka. Þar áttu þrjár sónötur að vera leiknar, auk tilbrigða. En eitt atriðið féll niður, svo dagskráin var býsna rýr.

Fyrst lék Þóra Kristín Gunnarsdóttir tilbrigði í c-moll. Túlkun hennar var stórbrotin og gædd viðeigandi ákafa. Tilbrigðin eru mjög fjölbreytt og krefjast mismunandi leiktækni. Þóra Kristín hafði þau ágætlega á valdi sínu. Engu að síður hefði áslátturinn mátt vera einbeittari. Hann var dálítið holóttur ef svo má að orði komast, sumar nótur heyrðust ekki nægilega vel, eða voru hreinlega ekki til staðar.

Listin óskast

Næst á dagskránni var sónata nr. 11 í B-dúr op. 22 sem Peter Maté lék. Spilamennskan var afar fagmannleg, allar nótur á sínum stað og áslátturinn lýtalaus. Hins vegar tókst Peter ekki að gera verkið áhugavert. Segja má um sónötuna að hún er óvanalega vanaleg. Beethoven var byltingarmaður í tónlistinni, og fór oft út fyrir ramma viðtekinna venja í tónsmíðum. En ekki hér og túlkunin þarf að bæta upp fyrir það. Til allrar óhamingju skorti upp á innlifunina í leik Peters, og útkoman var hvorki fugl né fiskur. Ekki er nóg að spila bara nóturnar; hjartað verður að fylgja með líka. Maður vill LIST, ekki handverk.

Miklu meiri tilþrif voru í leik Aladars Rácz, en hann flutti sónötuna nr. 13 op. 27 nr. 1. Vissulega er sjálft verkið mun dramatískara, en túlkun Aladars var fyllilega í anda þess, og gott betur. Hann lagði greinilega allt í sölurnar, og því var leikurinn sérlega spennandi. Aftur á móti vantaði af og til skýrleikann í spilamennskuna, eins og t.d. í ásláttarkenndum öðrum kaflanum, sem hefði getað verið snarpari. Heildarmyndin var samt sannfærandi, og var þetta flottur endir á tónleikunum.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s