Flottir tónleikar, og þó

Niðurstaða: Vel spilað allt saman, en misáhugavert.

Sinfóníuhljómsveit Íslands flutti verk eftir Sibelius og Thomas Adès. Víkingur Heiðar Ólafsson lék einleik.

Eldborg í Hörpu

fimmtudagur 18. nóvember

Finnska tónskáldið Jean Sibelius drakk eins og svín, og hann reykti líka. Hann varð samt eldgamall. Á efri árum sagði hann: „Allir læknarnir sem hvöttu mig til að hætta að reykja og drekka eru dauðir!“

Tónlist Sibeliusar er stórbrotin og full af vímu og lífsnautn, sem er svo sannarlega grípandi. Það var hún þó ekki á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið. Fyrsta tónsmíðin var upphaflega fyrir kór, sem Sibelius sendi í keppni, en útsetti síðar fyrir strengjasveit og slagverk. Kórtextinn var um elskendur, og því hefði maður búist við djúsí tónlist. Hér vantaði einhverja hormóna, því herlegheitin voru óttalega andlaus undir stjórn Thomasar Adès. Spilamennska hljómsveitarinnar var samt góð, bæði nákvæm og fallega mótuð, en hún dugði ekki til að lyfta tónlistinni upp úr meðalmennskunni.

Ofviðrið, svíta nr. 2, eftir sama tónskáld, var ekki mikið kræsilegri. Hún byrjaði sem leikhústónlist við Ofviðri Shakespears, og samanstendur af stuttum köflum, nokkuð sundurlausum. Þar er enginn voldugur hápunktur á borð við þá sem eru svo áhrifaríkir í sinfóníum Sibeliusar. Hljómsveitin spilaði engu að síður ágætlega og var útkoman ljúf og lét þægilega í eyrum, en risti ekki djúpt.

Mögnuð dögun

Thomas Adès stjórnandi er einnig tónskáld, og þekktastur þannig. Næst á dagskránni var verk eftir hann sjálfan sem bar heitið Dawn, eða Dögun. Hún var í sjakonnuformi, sem er ættað frá barokktímanum, þegar Bach og Handel voru uppi.  Það einkennist af sömu hendingunni sem er endurtekin aftur og aftur, án nokkurra breytinga, en með mismunandi yfirborði. Yfirborðið hér fólst í fjölbreytilegum hljóðfærasamsetningum og ólíkum stefbrotum, sem mynduðu síbreytilega áferð. Tónlistinni óx stöðugt ásmegin og var hápunkturinn voldugur.

Hljómsveitin spilaði listavel undir öruggri stjórn tónskáldsins, hver einasti hljóðfærahópur var með sitt á hreinu. Uppröðun sveitarinnar var óvanaleg, sumir blásarar voru staðsettir á svölum. Þannig varð til ákveðin þrívídd sem tíðkast ekki á Sinfóníutónleikum. Þrívíddin skapaði sérstök hughrif, það var eins og að vera svífandi úti í geimi að horfa á dögunina færast yfir jarðarkúluna. Hvert svæði á fætur öðru lýstist upp, sem mun einmitt hafa verið hugmynd tónskáldsins með verkinu. Þetta var magnað.

Fráhrindandi sköpun

Tónleikunum lauk með píanókonsert eftir Adès, In Seven Days. Titillinn vísar til sköpunarsögunnar í Biblíunni. Yfirbragð tónlistarinnar var dálítið kuldalegt. Kom þá í hugann það sem talsmaður Kaþólsku kirkjunnar í Bandaríkjunum, Robert Barron, hefur haldið fram. Hann segir að í kristninni skapar Guð heiminn í kærleika, ólíkt mörgum „heiðnum“ trúarbrögðum þar sem veröldin verður til úr átökum. Þessi kærleikur virtist víðsfjarri í tónlistinni hér. Þvert á móti var sköpunin hranaleg og fráhrindandi; Guð virtist ekki vera sérlega geðþekkur.

Víkingur Heiðar Ólafsson lék einleik á nýjan flygil, sem kom prýðilega út. Einleikurinn var stórbrotinn og glæsilegur, allt var tært og fullkomlega mótað. Hljómsveitin spilað líka flókinn tónavefinn af kostgæfni og heilarmyndin var flott. En maður spurði sjálfan sig til hvers. Sköpun þessa heims eins og Adès sýndi hana var án kærleika og ekki eftirsóknarverð, og tónlistin því síður.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s