Dásamlegur í höndum Víkings

Niðurstaða: Glæsilegur geisladiskur með sannfærandi túlkun

Geisladiskur

Víkingur Ólafsson: Mozart & Contemporaries

Detusche Grammophon

Rannsóknir hafa upplýst að þeir sem hlusta á sónötu fyrir tvö píanó í D-dúr K 448 eftir Mozart rétt áður en þeir eiga  að leysa ákveðnar heilaþrautir, standa sig betur en aðrir. Vísindarannsóknir hafa líka sýnt fram á að sama sónata, ef hlustað er á hana í um tíu mínútur á kvöldin daglega, leiðréttir tímabundna truflun á rafvirkni heila flogaveikisjúklinga.

Mig grunar að þetta eigi við um fleiri verk eftir snillinginn en aðeins þessa tilteknu sónötu. Tilvalið er því að setja nýjasta geisladisk Víkings Heiðars Ólafssonar á fóninn. Hann jafnast örugglega á við líkamsrækt fyrir heilann.

Hér er að vísu meira en bara Mozart. Víkingur spilar líka verk eftir nokkra samtímamenn, þ.e. Baldassare Galuppi, Domenico Cimarosa, Carl Philipp Emanuel Bach  og Haydn gamla. Fyrir bragðið fær maður betri tilfinningu fyrir tímabilinu þegar Mozart var uppi, stemningunni sem þá ríkti.

Breið túlkun

Spilamennskan er svo gott sem fullkomin. Hún er tær og meitluð, hröð tónahlaup glitrandi, tónmyndunin blæbrigðarík og fáguð. Mikil breidd er í túlkuninni, og kemur það hvað best út í d-moll fantasíunni, sem Mozart kláraði ekki. Hún er innhverf og tregafull, og Víkingur nær að miðla skáldskapnum þannig að það hittir mann í hjartastað.

Sú útgáfa sem er þekktust af verkinu er með glaðlegum lokakafla, en hann er ekki eftir Mozart. Upprunalega gerðin endar á hljómi sem kallar á niðurlag, og Víkingur leysir það með því að spila strax á eftir ofurhratt Rondó í D-dúr K 485. Það smellpassar. Verkin tvö eru eins og ein órofa heild, en andstæðurnar þar á milli eru ákaflega skarpar. Útkoman er mögnuð.

Flottar útsetningar

Nokkrar áhugaverðar útsetningar gleðja eyrað. Fyrir það fyrsta hefur Víkingur sjálfur útsett sónötur eftir Cimarosa, klætt þær hljómum sem ekki eru að finna í upprunalegu gerðunum. Þeir eru einstaklega fallegir og gefa tónmálinu munúðarfullan blæ sem skapar draumkennda stemningu.

Útsetning Víkings á hæga kaflanum úr þriðja strengjakvintettinum eftir Mozart er líka forkunnarfögur. Og svo er dásamlegt að heyra útsetningu Liszts á Ave Verum Corpus eftir meistarann, sem er þrungin helgi, akkúrat eins og hún á að hljóma.  

Mollinn áhrifameiri

Ég er á þeirri skoðun að Mozart sé almennt betri í moll en í dúr. Mollinn er dekkri og þar fær tónlistin einhverja dýpt sem vantar í hinum verkunum. Mollinn er ríkjandi á seinni hluta disksins, og er c-moll sónatan í öndvegi. Hún er gædd rétta dramanu, sorginni, eftirsjánni, jafnvel örvæntingunni.  

Bob Hope sagði einu sinni um ónefndan píanista „Þegar hún byrjaði að spila kom Steinway sjálfur í eigin persónu og strokaði nafn sitt af flyglinum.“ Ekki er mikil hætta á að það gerist hér.  

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s