
Niðurstaða: Sumt var gott, annað ekki.
Verk eftir Bach á jólatónleikum Kammersveitar Reykjavíkur
Einleikarar: Una Sveinbjarnardóttir og fleiri
Norðurljós í Hörpu
sunnudagur 5. desember
Franska tónskáldið Paul Dukas sagði einu sinni að konsertinn væri óæðra listform í samanburði við sinfóníuna. Í hinum fyrrnefnda væri áherslan á einstaklinginn og yfirburði hans, þ.e. einleikarann, en í sinfóníunni væri máttur heildarinnar allsráðandi.
Einleikshlutverkið er þó fremur hófsamt í Brandenborgarkonsertunum eftir Bach miðað við það sem tíðkaðist á rómantíska tímabilinu löngu síðar. Í Brandenborgarkonsertunum nr. 1 og 4, sem voru leiknir á jólatónleikum Kammersveitar Reykjavíkur, voru einleikararnir þrír og skiptu þeir sólóunum á milli sín, ef svo má segja.
Þurrt og hvellt
Fyrst á dagskránni var konsert nr. 4. Hann kom nokkuð misjafnlega út. Hljómburðurinn í Norðurljósum í Hörpu var dálítið skringilegur. Fiðlurnar hljómuðu þurrar og heildaráferðin var fremur hvell. Þetta gerði að verkum að útkoman var ekkert sérstaklega ánægjuleg. Það hefði þurft að mýkja hljóminn á einhvern hátt. Leikur allra hljómsveitarmeðlima var engu að síður vandaður og agaður.
Áshildur Haraldsóttir og Emilía Rós Sigdfúsdóttir léku einleik á flautu. Spilamennskan var í hvívetna góð, tær og hnitmiðuð. Páll Palomares fiðluleikari stal þó senunni með háskalegum, ofurhröðum tónahlaupum sem hann hristi fram úr erminni. Leikur hans var sérlega einbeittur og glæsilegur.
Virkaði klemmdur
Næst á dagskránni var fiðlukonsertinn í E-dúr BWV 1042 eftir Bach, en þar var Una Sveinbjarnardóttir í aðalhlutverkinu. Hún hefur oft verið í betra formi. Leikur hennar var yfirspenntur og stundum ekki nægilega nákvæmur. Hljómurinn í fiðlunni virkaði klemmdur, hann komst aldrei á flug, og að hluta til var það hljómburðinum að kenna. Fyrir bragðið var konsertinn fremur bragðlítill. Það gerðist ekkert í honum.
Brandenborgarkonsert nr. 1 eftir Bach rak lestina. Þar voru einleikarar þau Vera Panitch fiðluleikari, sem var með flest á hreinu, og hornleikararnir Stefán Jón Bernharðsson og Frank Hammarin. Þeir spiluðu prýðilega, en hljómurinn í hornunum var bara alltof sterkur miðað við hina. Einleiksfiðla Veru var mjóróma og hornleikararnir völtuðu svo yfir hana að það var pínlegt. Leikur annarra hljóðfæraleikara var samkvæmt bókinni, en það dugði skammt. Heildarútkoman var ekki sannfærandi.
Jólatónleikar Kammersveitar Reykjavíkur voru á árum áður alltaf í Áskirkju. Ég saknaði kirkjunnar á tónleikunum nú. Stemningin í henni hefði lyft tónleikunum upp á annað plan; maður vildi jólastemningu. Hana vantaði svo sannarlega hér.