Forkunnarfagur söngur bar af

Niðurstaða: Frábær tónlist en flutningurinn var misjafn og slæmur hljómburður hjálpaði ekki.

Miðevrópsk kvikmyndatónlist

Kaldalón í Hörpu

mánudagur 6. desember

Tónskratti, eða Diabolus in musica, er bil á milli tveggja tóna sem kallast stækkuð ferund. Hún þótti óskaplega ljót í gamla daga; þaðan kemur nafnið. Tónbilið er algengt í tónlist sem fjallar á einhvern hátt um öfl myrkurisins. Þannig er uppi á teningnum í kvikmynd Romans Polanski, The Ninth Gate. Wojciech Kilar samdi tónlistina og stækkaðar ferundir eru út um allt.

Tónlist Kilars er sjaldheyrð á tónleikum hérlendis, og því fylltist ég eftirvæntingu þegar ég sá nafn hans á efnissskránni á tónleikum í Kaldalóni í Hörpu á mánudagskvöldið. Átti maður von á einhverjum spennandi djöfulgangi?

Nei, svo var ekki. Það sem hér var flutt var bara hugljúfur vals úr kvikmyndinni The Promised Land eftir Andrzej Wajda. Tónlistin var þægileg áheyrnar, risti reyndar ekki djúpt, en átti væntanlega ekki að gera það.

Eins og nemendahljómsveit

Tónleikarnir samanstóðu af lögum úr miðevrópskum kvikmyndum. Kammersveit hljóðfæraleikara spilaði og virtust þeir flestir vera úr Sinfóníuhljómsveit Íslands. Leikur þeirra olli nokkrum vonbrigðum. Fiðlurnar voru ekki alveg hreinar og var það á köflum svo áberandi að það var eins og nemendahljómsveit væri að spila. Hljómburðurinn í Kaldalóni hjálpaði ekki, en hann er skraufþurr og hentar því betur rafmagnaðri tónlist. Órafmagnaður söngur kemur alltaf einstaklega illa út þar, sem og fiðlur – líka þegar þær eru hreinar.

Tónlistin var engu að síður skemmtileg. Lögin voru eftir Michal Novinski, Attila Pacsay, Krzysztof Komeda, Henryk Wars, Judit Varga, Markétu Irglovu og Glen Hansard. Þau voru fremur keimlík; laglínur voru grípandi og oft angurværar, stemningin brothætt og tregafull.

Útsetningarnar voru eftir Zbigniew Zuchowicz og voru býsna sannfærandi. Þær voru fjölbreyttar og litríkar; mismunandi raddir samsvöruðu sér ágætlega. Þarna var píanó, slagverk, gítar (í einu lagi) og strengjasveit. Verst hvað fiðlurnar voru ókræsilegar.

Besta lagið

Markéta Irglova átti langbesta lagið á tónleikunum, The Hill, úr myndinni Once eftir John Carney. Irglova mun vera búsett hérlendis og er margverðlaunað tónskáld. Hún flutti lagið sjálf, söng einstaklega fallega og spilaði undir á píanó. Lagið var unaðslegt áheyrnar, einfalt en dáleiðandi. Hinir vondu strengir voru sem betur fer víðsfjarri.

Tónlist í kvikmyndum virkar oft ekki vel út á tónleikum ein og sér. Tónleikarnir nú voru undantekning. Laglínurnar voru svo hrífandi að það var sérlega ánægjulegt. Bara að hljómsveitarleikurinn hefði verið jafngóður.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s