Tröllið sem stal jólunum

Niðurstaða: Vel sungið en engu að síður sérlega leiðinlegir tónleikar sem liðu fyrir skort á alþýðleika.

Kór Hallgrímskirkju söng undir stjórn Steinars Loga Helgasonar. Einsöngur: Jóna G. Kolbrúnardóttir. Einleikur: Baldvin Oddson.

Hallgrímskirkja

fimmtudagur 16. desember

Hvernig skiptir kórstjóri um ljósaperu? Hann heldur um hana og lætur heiminn snúast í kringum sig.

Nú skal ósagt látið hvort Steinar Logi Helgason er svona kórstjóri sem er miðdepill alheimsins. Greinilegt var á jólatónleikum hins nýstofnaða Kórs Hallgrímskirkju á fimmtudagskvöldið að hann vissi hvað hann var að gera. Bendingar hans voru ákveðnar og hnitmiðaðar, öll stjórnin fumlaus og akkúrat.

Vel sungið

Kórinn söng líka ágætlega. Styrkleikajafnvægi mismunandi radda var prýðilegt, söngurinn var tær og heildarhljómurinn gæddur notalegri fyllingu. Tæknilega séð er kórinn alveg sambærilegur við Mótettukórinn, sem fylgdi Herði Áskelssyni er hann yfirgaf kirkjuna fyrir skemmstu.

Jóna G. Kolbrúnardóttir söng einsöng og gerði það ákaflega fallega. Rödd hennar var björt og hljómmikil. Baldvin Oddsson spilaði svo á trompet, og gerði það af nákvæmni og fagmennsku.

Vondu fréttirnar

Þetta eru góðu fréttirnar. Þær slæmu eru að þegar nokkuð var liðið á dagskrána spurði maður sjálfan sig: Dó einhver? Þetta voru nefnilega afskaplega drungalegir tónleikar. Verkefnaval kórsins var þungt og túlkunin heilt yfir var þrungin alvöru sem jaðraði við helgislepju. Stemningin var eins og í jarðarför. Jólin eru samt tími gleði og fögnuðar þegar ljósið fæðist inn í heiminn. Hér voru engar gleðifréttir, bara tíðindi af yfirvofandi heimsendi. Tröllið var búið að stela jólunum.

Verkefnavalið samanstóð af klassískum lögum á borð við Kom þú, kom, vor Immanúel, Með gleðiraust og helgum hljóm, Hátíð fer að höndum ein og þar fram eftir götunum. Svo voru þarna líka Maríuvísur og allmörg lög með latneskum titlum. Þau hafa vissulega verið flutt á gleðiríkum tónleikum, en hér var túlkunin bara svo dauðyflisleg að tónlistin komst aldrei á flug. Hvað þá að hún skapaði jólastemningu. Það var kannski helst Lofsöngur Maríu eftir Þorvald Örn Davíðsson sem eitthvað fútt var í hjá kórnum.

Eins og í jarðarför

Nokkur millispil voru leikin á tompetinn án undirspils, á meðan kórinn var að skipta um stöðu. Þau voru samin af Steinari Loga. Millispilin minntu helst á trompetsólóin í jarðarförum hjá bandaríska hernum eins og þau koma fyrir í ótal kvikmyndum. Andrúmsloftið var svipað, nema að hér voru laglínurnar ómstríðari. Þetta jók mjög á jarðarfararstemninguna á tónleikunum.

Hefði það drepið kórinn að syngja svo sem eins og eitt Heims um ból eða Nóttin var sú ágæt ein? Það vantaði allan alþýðleika í dagskrána. Ég hef verið á fjölmörgum jólatónleikum í Hallgrímskirkju og þeir hafa ætíð verið skemmtilegir og upplyftandi. Hér var maður kýldur niður og fór út í náttmyrkrið á eftir alveg niðurbrotinn.  

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s