Mikill er máttur tónlistarinnar

Óperusöngkona gengur fram á sviðið. Hún er stór og mikil, í gullslegnum kjól. Hljómsveitin spilar á fullu og söngkonan dregur andann djúpt. Tónarnir sem hún syngur eru brjálæðislega sterkir. Á háa C-inu brotna kampavínsglös tónleikagesta og sprungur koma í gleraugun. Risavaxin kristalsljósakrónan splundrast og glerbrotum rignir yfir alla.

Líklega hefur enginn séð þetta gerast í alvörunni. Ekki var þó langt frá einmitt því á tónleikum Ólafs Kjartans Sigurðarsonar baríton. Þeir voru í Hörpu í mars á árinu sem er að líða, nánar tiltekið þann nítjánda.  Wagner var í öndvegi á dagskránni. Hápunkturinn á tónleikunum var þegar Ólafur brá sér í gervi Óðins. Það var í atriði í hinum mikla fjórleik, Niflungahringnum, er Óðinn refsar dóttur sinni fyrir eitthvað ægilegt. Hann sviptir hana guðdóminum og lætur hana falla í dvala á miðjum fjallstindi. Því næst bankar hann í fjallið. Við það kviknar vafurlogi sem aðeins sönn hetja getur komist í gegnum.

Í flutningnum á tónleikunum var ljósinu á veggjum Norðurljósasalarins breytt í rautt þegar Ólafur tók að syngja um vafurlogann. Það var áhrifaríkt, eins og maður væri umluktur eldi. Svo undarlega vildi til að á akkúrat því augnabliki byrjaði að gjósa í Fagradalsfjalli. Það er sko kristalsljósakróna og gott betur.

Innblásin Ollikainen

Wagner kom líka við sögu hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands í vor. Þá stjórnaði Eva Ollikainen, sem er aðalhljómsveitarstjórinn. Segjast verður eins og er að við erum heppin að hafa hana. Hún hefur sýnt það aftur og aftur að hún býr yfir sérlega næmri tilfinningu fyrir listrænu inntaki mismunandi tónsmíða. Svo kann hún að miðla þessum anda af sannfæringarkrafti. Hún er óvanalega innblásinn hljómsveitarstjóri. Hápunktarnir í Wagner voru svo yfirgengilegir að það var engu líkt.

Tónleikarnir með níundu sinfóníu Beethovens í haust, þar sem Ollikainen stjórnaði, voru einnig flottir. Kórar og einsöngvarar voru með sitt á hreinu. Samt var það hitt verkið á dagskránni sem stal senunni. Það var harmóníkukonsert eftir Sofiu Gubaidulinu, með Geir Draugsvoll í einleikshlutverkinu. Tilþrifin hjá einleikaranum voru slík að það var eins og heil hljómsveit væri að spila. Nútímatónlist er ekki alltaf leiðinleg, síður en svo.

Sterkur sinfónískur dans

Og samt var það þannig að einu sinni í Lundúnum var verið að flytja tríó eftir Anton Webern, sem þá var nýsamið. Í miðjum flutningnum varð sellóleikarinn skyndilega brjálaður. Hann hætti að spila, stökk á fætur og æpti: „Ég þoli þetta ekki lengur!“ Atvikið vakti mikla athygli. Það varð að heitum umræðum á opinberum vettvangi um rétt flytjenda til að ritskoða nýja tónlist og hafna að vild.

Ósennilegt er að nokkur sellóleikari hafi hugsað svona í sinfóníska dansverkinu Aion eftir Önnu Þorvaldsdóttur og Ernu Ómarsdóttur í október. Tónlistin, sem leikin var af Sinfóníuhljómsveit Íslands, var myrk og lokkandi. Dansinn var í höndum átta dansara úr Íslenska dansflokknum. Hann byrjaði feimnislega. Síðan varð hann æ meira lifandi og umbreyttist á endanum í einhvers konar orgíu náttúrukrafta. Hljómsveitin sogaðist líka smám saman inn í dansinn, sem og hjóðfærin sjálf. Þetta kvöld var fullt tungl, sem var svo sannarlega viðeigandi.

Helvítis gagnrýnandinn

Einhver tunglsýki greip einnig um sig á Facebook á tímabili. Hörundsárir söngvarar titruðu mjög þegar undirritaður skrifaði um nýstárlega útgáfu óperunnar Fidelio eftir Beethoven. Hún fór fram í Norðurljósum í Hörpu í haust. Hljóðfæraleikurinn í Fidelio á að vera í höndum heillar sinfóníuhljómsveitar, en hér var hún aðeins flutt af sjö hljóðfæraleikurum. Útkoman var óttalega rýr. Leikgerðin var auk þess afleit. Heilmiklu var sleppt úr upprunalegri útgáfu óperunnar og reynt að breiða yfir það með ódýrum bröndurum.

Að mati einhverra óperusöngvara mátti bara alls ekki benda á þetta; það átti að þagga niður í þeim sem voru með “rangar” skoðanir. Og helst reka þá úr starfi.

Upp kemur í hugann þegar Josef Göbbels, áróðursmeistari Þriðja ríkisins í Þýskalandi, gaf út yfirlýsingu um listgagnrýni: „Þar sem árið 1936 hefur liðið án nokkurra fullnægjandi framfara í listgagnrýni, þá banna ég hér með iðkun listgagnrýni eins og hún hefur verið stunduð hingað til. Héðan í frá munu fréttir af listum koma í stað listgagnrýni… Listgagnrýnandinn mun nú víkja fyrir menningarritstjóranum… Í framtíðinni verður aðeins þeim menningarritstjórum leyft að fjalla um listir sem nálgast verkefni sitt með hreint hjarta og fullvissu [um réttmæti] þjóðernissósíalismans.“

Viljum við þetta nokkuð?

Rúsínan í pylsuendanum

Bestu tónleikar ársins voru með Concertgebouw-hljómsveitinni í nóvember. Það var eins og Súperman hefði stigið niður til jarðar í Hörpu. Tilfinningin var sú sama, að sjá ofurmenni í allri sinni dýrð hnykla vöðvana. Erlendar sinfóníuhljómsveitir eru sjaldheyrðar hér á landi, og því var kærkomið að sjá hana á lifandi tónleikum. Þetta var einfaldlega stórkostlegur listviðburður.

Loks ber að nefna nokkra áhugaverða geisladiska sem komu út með Hauki Guðlaugssyni organista, Víkingi Heiðari Ólafssyni píanóleikara, Unu Sveinbjarnardóttur fiðluleikara, Tinnu Þorsteinsdóttur píanóleikara og fleirum. Þeir voru ánægjulegir áheyrnar.

Í heild var árið sem er að líða ekki slæmt. Covid gerði að verkum að um tíma leit út fyrir að öllu yrði skellt í lás, en það gerðist í rauninni aldrei alveg. Auðvitað er alger viðbjóður að þurfa að vera með grímu á tónleikum, en það verður bara að hafa það. Vonandi verður þeim sleppt fyrr en síðar. Ég þakka lesendum mínum samfylgdina og óska þeim alls hins besta í framtíðinni.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s