
Niðurstaða: Flottir tónleikar með áhugaverðri tónlist, en fullmiklum trillum.
Halldór Bjarki Arnarson flutti verk eftir Handel, Bach, Lully og Froberger.
Salurinn í Kópavogi
miðvikudagur 5. janúar
Sagt er að Mozart hafi einu sinni ögrað Haydn með því að rétta honum nótur að lagi fyrir sembal. Það er hljómborðshljóðfæri og forfaðir píanósins. Fullt var af nótum fyrir hægri hendina og þá vinstri líka. En mitt á milli var nóta sem hvorug hendin náði. Haydn klóraði sér í höfðinu og kvað upp þann dóm að ómögulegt væri að leika lagið. Mozart flissaði þá og settist við sembalinn. Þegar kom að ómögulegu nótunni beygði hann sig niður og spilaði hana með nefinu.
Stemningin var ekki ósvipuð á tónleikum Halldórs Bjarka Arnarsonar semballeikara í Salnum í Kópavogi. Hann flutti þar svokallaðan Allemande, sem er dansform, eftir Johann Jakob Froberger. Með laginu fygdi saga. Halldór spilaði fyrst eingöngu tónlistina, og gerði það svo aftur um leið og hann sagði söguna. Hún var fyndin í sjálfri sér. Það hvernig raunir sögupersónanna endurspegluðust í ólíkum hljómum og tónahendingum kitlaði líka mjög svo hláturtaugar tónleikagesta.
Frelsi og formfesta
Tónleikarnir voru líflegir. Halldór sagði í upphafi að hann vildi sýna áheyrendum þær sérkennilegu andstæður sem einkenndu heim sembalsins á barokktímanum. Annarsvegar ríkti algert frelsi, hinsvegar stíf formfesta.
Fyrstu tvö verkin voru eftir Händel og Bach, svíta í B-dúr eftir þann fyrrnefnda og prelúdía og fúga í es-moll eftir hinn síðarnefnda. Svítan byggir á mögnuðu stefi sem Brahms samdi vinsæl píanótilbrigði við. Í samanburðinum er upphaflega tónlistin fyrir sembal frekar rýr, enda hljóðfærið mun takmarkaðra en píanóið.
Semballinn hefur þó ákveðinn sjarma og Halldór spilaði feiknavel á hann. Leikur hans var í senn frjálslegur og agaður, nákvæmur og kröftugur. Helst mátti finna að fúgunni eftir Bach sem fyrr var vikið að, en hún hefði komið betur út ef hún takturinn í henni hefði verið stöðugri. Frelsið var þarna fullmikið á kostnað formfestunnar.
Sembalsmiður gerði fallöxina
Gríðarlega mikið var af trillum á tónleikunum. Svo mjög að manni fannst nóg um. Trilla er það þegar tveir tónar, yfirleitt hlið við hlið, eru leiknir sitt á hvað afar hratt.
Ástæðan fyrir öllum trillunum í sembaltónlist er sú að tónarnir í hljóðfærinu deyja út á svipstundu. Trillurnar leyfa tónunum að lifa eins lengi og þurfa þykir. Á píanóinu er þetta ekki nauðsynlegt, og því virkar píanótónlistin ekki eins taugaveikluð. Þar eru færri trillur.
Hér voru trillurnar að drepa mann. Minntist maður þá þess að það var sembalsmiður sem bjó til frumgerð fallaxarinnar, en hún var notuð með góðum árangri í frönsku stjórnarbyltingunni! En Halldór Bjarki spilaði trillurnar engu að síður vel.
Almennt talað voru þetta góðir tónleikar. Semballeikarinn var skýrmæltur í kynningum sínum á tónlistinni. Túlkun hans var yfirleitt sannfærandi og skemmtileg, gædd þokka og tígulleik, einmitt eins og hún átti að vera.