Norðurljósin dönsuðu í tónlistinni

Niðurstaða: Sérlega glæsilegir tónleikar með skemmtilegri tónlist.

Verk eftir Dvorák, Mozart, Kodaly og Mist Þorkelsdóttur. Flytjendur: Rannveig Marta Sarc, Brian Hong og Svava Bernharðsdóttir.

Salurinn í Kópavogi

þriðjudaginn 11. janúar

Eins og venjulega voru allir með grímur á tónleikum í Salnum í Kópavogi á þriðjudagskvöldið. Tónlistarflytjendurnir, sem voru þrír, voru það þó ekki og stóðu í þokkabót þétt saman. En annar fiðluleikari hópsins, Rannveig Marta Sarc, afsakaði það með því að benda á að þau væru fjölskylda. Sara Bernharðsdóttir víóluleikari er móðir Rannveigar og Brian Hong fiðluleikari er eiginmaður hennar. Og ekki nóg með það, eitt verkið á efnisskránni var eftir frænku þeirra Rannveigar og Söru, Mist Þorkelsdóttur. Meira um það á eftir.

Slátrarinn varð tónskáld

Þremenningarnir eru allir frábærir spilarar, og frammistaðan nú olli ekki vonbrigðum. Þau hófu leik sinn á Terzetto í C-dúr op. 74 eftir Dvorák (borið fram Dvorsjak). Hann var tékkneskur og tónlistin hefur á sér slavneskt yfirbragð. Upphaflega ætlaði Dvorák að feta í fótspor föður síns og gerast slátrari, en var uppgötvaður af Jóhannesi Brahms, sem hrósaði ekki hverjum sem var. Þegar Brahms sagði „ekki slæmt“ þá meinti hann „alger snilld.“ Hann var yfir sig hrifinn af Dvorák.

Tónlist Dvoráks er lagræn og ávallt grípandi, og svo var um tónsmíðina nú. Hljóðfæraleikararnir spiluðu afskaplega fallega, hver einasti tónn var tær og vel mótaður, samspilið nákvæmt og í góðu jafnvægi. Túlkunin var full af innlifun og tilfinningaþrunginni áfergju sem hitti beint í mark.

Svo gott sem fullkomið

Næst á dagskránni var Dúó eftir Mozart, KV 426, fyrir fiðlu og víólu. Þær mæðgur spiluðu af nákvæmni, nostruðu við hvert smáatriði í tónblæ; túlkunin var létt og leikandi, en þó brá fyrir hástemmdri alvöru þegar við átti. Samspilið var nánast fullkomið og því rann tónlistin ljúflega niður.

Hápunktur tónleikanna var þó hvorki Mozart né Dvorák, heldur frænkan fyrrnefnda, Mist Þorkelsdóttir. Verk hennar hét Kaleidoscope in the Frozen Sky og var fyrir fiðlu og víólu. Aftur léku þær Rannveig og Sara og miðluðu einstaklega heillandi skáldskap til áheyrenda.

Eins og í hugleiðslu

Mikið var um liggjandi, merkingarþrungna hljóma sem tóku stöðugum breytingum. Hljóðfæraleikararnir voru aldrei á sama stað frá einu augnabliki til annars, voru ýmist langt frá hvor öðrum eða þétt saman. Raddirnar komu því úr mismunandi áttum sem jók á galdur tónmálsins. Stemningin var íhugul, nánast eins og í hugleiðslu. Maður gat ímyndað sér nakið og fagurt landslag að nóttu til þegar norðurljósin dansa á himninum. Þetta var magnað.

Ein önnur tónsmíð var á dagskránni, Serenaða fyrir tvær fiðlur og víólu eftir Zoltan Kodaly. Bættist þá Brian Hong aftur í hópinn. Serenaðan er lífleg og hress, og flutningurinn var í takt við það, þrunginn snerpu og krafti. Maður var hins vegar orðinn dálítið þreyttur er hér var komið sögu, enda tónleikarnir um einn og hálfur tími án hlés. Að mínu mati hefði því mátt sleppa Kodaly, töfrarnir í tónlist Mistar voru verðugur lokahnykkur og ekki neinu þar við bætandi.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s