
Ekki er ljóst hve margir kórar eru starfandi á Íslandi, en þeir skipta tugum, ef ekki hundruðum ef allt er talið til. Margir Íslendingar hafa því einhverja reynslu af kórastarfi, þó ekki nema af því að syngja í barnaskóla.
Ég var sjálfur í Ísaksskóla og þar hófst vikan venjulega á því að allir bekkirnir sungu saman frammi á gangi áður en kennslan hófst. Kannski kom mitt gagnrýnendaeðli fram strax þarna þegar ég var sex ára, því mér fannst kórsöngurinn óskaplega hallærislegur. Ég fékk alltaf bjánahroll og ímyndaði mér – og óskaði – að mitt í kórgaulinu kæmi pabbi fljúgandi í Batmanbúningi og hrifi mig á brott.
Undirleikari hjá Slökkviliðinu
Um 25 árum seinna lenti ég í því að verða undirleikari karlakórs Slökkviliðsins. Æfingarnar fóru fram í Skógarhlíðinni og þær voru fjörugar. Einu sinni átti kórinn að syngja í fínni veislu sem fór fram í Rúgbrauðsgerðinni. Meðal gesta var Páll Pétursson félagsmálaráðherra, svo mikið var í húfi. Kórinn varð að sýna sitt fegursta andlit.
Við gengum frekar taugaóstyrkir fram fyrir gestina. Kórinn tók sér stöðu og ég settist við svart píanó (ekki flygil) sem var staðsett við stóran glugga. Þetta var um haust og frekar hlýtt, glugginn var því opinn. Kórinn hóf söng sinn og ég spilaði með honum einfalt lag sem ég kunni ekki, en undirleikurinn var auðveldur og ég las hann beint af ljósrituðu blaði.
Söngurinn fór í köku
Þá kom allt í einu vindhviða. Nótnablaðið hófst á loft og sveif undir píanóið. Þar sem ég kunni ekki lagið og var algerlega háður nótunum var ég í vanda staddur. Ég brást eins vitlaust við og hugsast gat, hætti bara að spila í miðju lagi. Félagsmálaráðherrann og fylgdarlið hans sáu næst afturendann á mér þar sem ég var að reyna að veiða nótnablaðið undan píanóinu.
Slökkviðliðsmennirnir héldu þó áfram að syngja, en þar sem undirleikinn vantaði fór söngurinn í köku og hver söng með sínu nefi. Þegar ég loksins leit upp sá ég að kórfélagarnir voru eldrauðir í framan. Þeir horfðu á mig illilega. Tónlistarflutningurinn hafði algerlega misheppnast og það var mér að kenna.
Ég var rekinn úr kórnum. Á næstu tónleikum hans var annar undirleikari. En hann var víst enn verri en ég, svo ég var ráðinn til baka. Mér var þó stanslaust strítt á æfingum eftir þetta, svo jaðraði við einelti. Alltaf fyrir tónleika var ég spurður: „Jónas, hvernig er vindáttin?“ Síðan var hlegið kvikindislegum hlátri.
Kórstjórinn var egóisti
Tveimur árum síðar starfaði ég um tíma með öðrum kór, sem ég ætla ekki að nefna. Þar kynntist ég nokkru sem er mjög algengt. Yfirstjórn kórsins sér kórstjórann sem starfsmann kórsins, og hlutverk hans er að kórstarfið gangi sem best og meðlimirnir fái sem mest fyrir peninginn sinn. Kórstjórinn hins vegar lítur á kórinn sem sitt einkahljóðfæri og vettvang fyrir eigin sköpunarþörf. Svo var uppi á teningnum hér.
Kórstjórinn samdi lög og hann var óþreytandi við að fá kórinn, og mig, til að flytja þau. Lögin voru þó óttalegur leirburður og það var pínlegt fyrir alla að þurfa sífellt að vera að æfa þau, hvað þá að troða upp með þau á tónleikum. Á endanum hætti ég.
Fimm flott kórverk
Nei, þá er nú meira varið í verkin er hér verða upptalin, fimm stórkostleg kórverk sem hægt er að njóta á meðan samkomutakmarkanir eru í gildi. Núna eru auðvitað engir kórtónleikar, en netið er á sínum stað og um að gera að streyma sem mest eða hlusta á geisladiska.
Vivaldi: Gloria
Textinn byrjar á „dýrð sé Guði í upphæðum“ og er í senn tignarlegur og fagnandi. Hrifningarvíman er smitandi og tónlistin missir aldrei dampinn. Þetta er einstaklega skemmtileg tónlist.
Rakhmanínoff: Vespers
Kvöldsöngur úr rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni er dásamlega fagur. Tónlistin byggir að hluta til á hefðbundnum stefjum úr kirkjunni og er þrungin trúarvímu og tímaleysi. Rakhmanínoff var snillingur.
Bach: Matteusarpassían
Þetta stórfenglega verk er í senn frásögn úr Nýja testamentinu og íhugun. Tónlistin er full af allskonar táknfræði og leyndardómum. Stefin eru guðdómleg, tónavefurinn hástemmdur.
Pergolesi: Stabat mater
Eitt fegursta kórverk sem hugsast getur. Tónlistin er tregablandin, enda um það hvernig María mey upplifir krossfestinguna. Byrjunin er einstaklega grípandi, stefin áleitin og samsöngur ólíkra radda himneskur.
Mozart: Sálumessa
Tónskáldinu entist ekki ævin til að ljúka verkinu, og var það annað tónskáld, Franz Xaver Süssmayr, sem gerði það. Upphafið er dásamlega seiðandi, og kaflinn um helvíti og hreinsunareldinn er stórbrotinn. Þetta er tónlist sem maður fær ekki nóg af. Óperukórinn, undir stjórn Garðars Cortes, flytur hana ævinlega aðfararnótt 5. desember til að minnast dauða tónskáldsins. Það er bara fyrir nátthrafna, en netið er aftur á móti alltaf til staðar og hægt að hlusta hvenær sem er. Góðar stundir!