Tónlist fyrir fæðingu barns

Niðurstaða: Snilldartónlist sem var sérlega vel flutt.

Verk eftir Wagner og Mozart í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Stjórnandi: Daníel Bjarnason.

Eldborg í Hörpu

fimmtudaginn 3. febrúar

Á netinu er að finna mynd af spýtukarli með prjónahúfu. Við hliðina á honum stendur: „Þetta er Bill. Bill elskar tónlist Wagners. Bill gerir sér grein fyrir að það elska ekki allir tónlist Wagners. Svo hann heldur ást sinni á tónlist Wagners fyrir sjálfan sig. Vertu eins og Bill.“

Ég ætla ekki að fara eftir þessu ráði. Ég elska Wagner og básúna því hér með um allar grundir. Wagner var magnaður snillingur og tónlist hans er einstök. Dæmi um það var að finna á fyrstu tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á árinu, í hádeginu á fimmtudaginn. Þar var flutt Siegfried Idyll, sinfónískt tónaljóð sem var afmælisgjöf tónskáldsins til Cosimu, eiginkonu sinnar eftir að hún hafði fætt honum soninn Siegfried.

Spennandi tónlist

Tónlistin einkennist af spennandi framvinnu, sem er það vegna þess að hún kemur stöðugt á óvart. Einmitt þegar maður heldur að verkið sé búið gerist eitthvað nýtt. Um þetta fjallar annar brandari sem hljómar svona: Hvað er líkt með skuldum Wagners og tónverkum hans? Úr hvorugu leysist nokkurn tímann. Þetta er nú ekki alveg rétt, en það er nálægt sannleikanum. Tónlist Wagners fer með mann í ferðalag um undraheima, sem virðist aldrei ætla að taka enda. En það gerir ekkert til, því ferðalagið er svo dásamlegt.

Daníel Bjarnason stjórnaði hljómsveitinni. Strengjaleikurinn í upphafi var dálítið loðinn, en von bráðar náði tónlistin fókus og útkoman var í háum gæðaflokki. Leikurinn var tær og í góðu jafnvægi ólíkra radda, og flæðið í túlkuninni var óheft. Fyrir vikið var upplifunin einstaklega ánægjuleg.

Gleðirík og björt

Siegfried Idyll var samið í tilefni fæðingar barns, og núna ætla ég að leyfa mér að vera persónulegur, því hitt verkið á dagskránni var tónlistin sem dóttir mín fæddist við. Það var sinfónía nr. 29 eftir Mozart. Ekki er hægt að hugsa sér betri tónlist fyrir slíkt tilefni. Hún er í senn gleðirík og björt, en líka háleit og hátíðleg. Laglínurnar eru grípandi, raddsetningin glæsileg og yfir öllu er andrúmsloft upphafins fögnuðar.

Skemmst er frá því að segja að tónlistarflutningurinn hér var ákaflega fallegur. Byrjunin á fyrsta kaflanum var friðsæl og íhugul, nánast tignarleg. Hraðaval var sannfærandi og mismunandi hljóðfærahópar voru með sitt á hreinu. Túlkunin var litrík og full af stemningu, hraðar strófur nákvæmar, en samt svo yndislega dillandi.

Hinir kaflarnir voru ekki síðri, ýmist gæddir hugljúfri einlægni, eða ærslafenginni kímni. Mozart var bara táningur þegar hann samdi sinfóníuna, en hann hafði samt tekið út fullan þroska sem listamaður. Á þessu skeiði var hann lífsglaður og það smitast svo sannarlega í verkinu.

Óvanalegt var að fara á hádegistónleika hjá sinfóníuhljómsveitinni, en þeir voru haldnir í Eldborg. Ókeypis var á tónleikana og voru þeir ágætlega sóttir. Núna er tónleikalífið loksins að fara á fullt aftur – hvílík gleði! – og þessi sinfónía eftir Mozart hæfði tilefninu.  

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s