Þrumur og eldingar í Hörpu

Niðurstaða: Glæsileg tónlist og stórfenglegur flutningur.

Verk eftir Mozart og Beethoven í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands undir stjórn Evu Ollikanen.

Eldborg í Hörpu

fimmtudagur 10. febrúar

Forleikurinn að Brúðkaupi Fígarós, sem var á dagskránni á hádegistónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudaginn, er afar skemmtileg tónlist. Hún er full af fjöri, enda var tónskáldið með mikla kímnigáfu. Þetta er undirstrikað í hinni stórkostlegu kvikmynd, Amadeus, sem fjallar um Mozart. Þar vekur hann hneysklun fyrir trúðslæti, en snilldin sem flæðir í gegnum hann virkar fyrir bragðið ennþá tilkomumeiri. Andstæður fíflalátanna og upphafinnar tónlistarinnar eru furðulega heillandi.

Eva Ollikainen stjórnaði hljómsveitinni og gerði það ákaflega vel. Hljómsveitin spilaði af öryggi, hröð tónahlaup voru skýr og jöfn. Raddir mismunandi hljóðfærahópa voru nákvæmar, og heildarhljómurinn voldugur og bjartur. Túlkuninn einkenndist af spennu og líflegheitum, akkúrat eins og hún átti að hljóma. Þetta var frábært.

Hermt eftir sveitasælu

Hitt verkið á efnisskránni var sjötta sinfónían eftir Beethoven, sem jafnan er kölluð Sveitasinfónían. Hún er svokölluð hermitónlist, þ.e. líkir eftir einhverju áþreyfanlegu fyrirbæri eða sögu. Victor Hugo sagði eitt sinn að tónlist er um eitthvað sem ekki er hægt að koma orðum að en er samt ekki hægt að þegja yfir. Þetta á ekki við um Sveitasinfóníu Beethovens, því hægt að segja með fáeinum orðum um hvað hún fjallar. Fyrsti kaflinn er um fögnuðinn yfir að komast í sveitina – væntanlega að sumri til. Annar kaflinn er um notalega stund við læk, en því næst byrjar sveitaball. Þá skellur á þrumuveður og svo styttir upp og allt verður gott á ný.

Þessi einfalda mynd er síður en svo einföld í tónlistinni, og það er ekkert banalt við hana. Fyrsti kaflinn er margslunginn og fullur af ljúfum tilfinningum. Stemningin við lækinn er sömuleiðis yndisleg og ballið er skemmtilegt. En það er þrumuveðrið sem skapar nauðsynlegt drama. Þar eru pákurnar lamdar af miklu afli til að líkja eftir þrumum. Pákuleikarinn, Sorya Nayyar, fór þarna á kostum á tónleikunum. Hljómsveitin í heild spilaði prýðilega undir öruggri stjórn Ollikainen. Tónlistin var tignarleg og tæknilegar hliðar flutningsins voru útpældar og flott settar fram. Blásararnir voru með allt á hreinu.

Fyrir gráglettni örlaganna var sinfónía Beethovens um sumarsælu í sveit frumflutt á ísköldum desemberdegi í Vínarborg árið 1808, í óupphituðum tónleikasal af illa æfðri hljómsveit. Sú var aldeilis ekki raunin hér.

Mozart og Beethoven í kvikmyndum

Bæði forleikurinn að Brúðkaupi Fígarós og Sveitasinfónían hafa verið notuð í kvikmyndum. Forleikurinn er í Trading Places með Eddie Murphy og Dan Akroyd. Þar gengur betlari í hlutverk forríks kaupsýslumanns og öfugt – með kostulegum afleiðingum. Og Sveitasinfónían er meginuppistaðan í Fantasíu eftir Walt Disney, eldri myndinni. Disney fylgdi þó ekki forskrift Beethovens, heldur setti tónlistina í grískt goðsagnarsamhengi. Þar eru kentárar og satírar, guðir og galdrar og er útkoman hreint út sagt mergjað sjónarspil. Báðar myndirnar eru aðgengilegar á sjónvarpsveitum, sú fyrri á Amazon Prime og hin á Disney plús. Nú er um að gera að leggast í sófann með popp og kók og glápa úr sér augun.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s