Draugagangur og tangó


Niðurstaða: Misáhugaverð dagskrá, en góður flutningur.

João Barradas flutt verk eftir Keith Jarrett, Yann Robin og Astor Piazzolla.
Norðurljós í Hörpu
miðvikudagur 16. febrúar

„Ærslandar eru miklu meira pirrandi en venjulegir draugar“ segir kona við manninn sinn í skopmynd. Hjónin sitja í stofunni sinni, og fyrir framan þau er draugur sem heldur á harmóníku. Harmóníkuleikurinn í Norðurljósum í Hörpu á miðvikudagskvöldið var líka dálítið draugalegur, a.m.k. voru tónarnir úr hljóðfærinu undarlegir. Það er ef tóna skyldi kalla.

Undarleg tónlist

Sá sem spilaði virtist þó vera þessa heims, þrátt fyrir að kynningarnar hans færu að mestu fyrir ofan garð og neðan hjá undirrituðum. Harmóníkuleikarinn hét João Barradas og talaði með sterkum erlendum hreim. Það, og bergmálið í salnum, gerði að verkum að erfitt var að skilja hann. Hjálplegt hefði verið að fá smá útskýringu á E[N]IGMA eftir Yann Robin, en það var draugagangurinn sem minnst var á hér að ofan. Því miður var tónleikaskráin í skötulíki.

Tónlistin samanstóð af alls konar áhrifshljóðum, bæði ómstríðum tónum og hljómum, og líka smellum og höggum. Það var eins og að verða vitni að dauðastríði eða hægfara pyntingum. Harmóníkan stundi af sársauka, enda var hún bæði lamin og hrist. Þrátt fyrir það var framvindan rislítil; ekkert gerðist í tónlistinni, hún virtist ekki hafa neitt að segja. Herlegheitin voru óáhugaverð og afar fráhrindandi.

Óttalega rýr

Nei, þá var nú meira varið í Hymn of Remembrance eftir Keith Jarrett. Þá á ég við upprunulegu tónlistina, en hana er að finna á tvöfaldri plötu sem ber heitið Hymns/Spheres. Þar má heyra Jarrett spila á orgel í risastórri kirkju í Ottobeuren í Þýskalandi. Hymn of Remembrance er fyrsta lagið á fyrri plötunni.

Tónlistin er tilkomumikil, þrungin andakt og eftirsjá. Upptakan með Jarrett er tignarleg, enda er hljómurinn í orgelinu voldugur, og svo bætist ríkuleg endurómun við. Fyrir bragðið er útkoman sérdeilis mögnuð. Í samanburðinum var smágerð harmóníkan óttalega rýr og virkaði helst eins og lítið ferðaútvarp.

Árstíðirnar sjarmerandi

Best á tónleikunum var Cuatro Estaciones Porteñas eftir Piazzolla, hugleiðingar um árstíðirnar fjórar í Buenos Aires. Eins og venjan var hjá tónskáldinu þá var hann innblásinn af tangónum, og stemningin í tónlistinni er eftir því hrífandi.

Tangóelskandi Argentínubúar munu þó hafa illan bifur á tónlist Piazzollas almennt, þeim finnst hún víst alltof flókin og takturinn heldur frjálslegur. Fyrir vikið er ekki hægt að dansa eftir henni. Verkin hér voru samt ákaflega skemmtileg, full af grípandi laglínum og spennandi framvindu. Barradas spilað forkunnarvel, leikur hans var snarpur og nákvæmur, kröftugur og lifandi. Tæknilega séð var spilamennskan óaðfinnanleg, tandurhrein og akkúrat. Þetta var frábært; meira svona hefði mátt vera á tónleikunum.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s