Fögnuður á Vínartónleikum

Niðurstaða: Flottir tónleikar þar sem dansararnir stálu senunni.

Verk eftir Strauss jr, Zeller, Lumbye, Kálmán og fleiri. Stjórnandi: Kornelios Michailidis. Einsöngvrara: Herdís Annar Jónasdóttir og Gissur Páll Gissurarson. Dansarar: Þorkell Jónsson, Denise Margrétt Yaghi, Gylfi Már Hrafnsson og María Tinna Hauksdóttir.Eldborg í Hörpu
fimmtudaginn 24. febrúar

Dónárvalsinn eftir Jóhann Strauss yngri, sem var leikinn á Vínartónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið, er spilaður út um allt í Vín. Það kveður svo rammt að því að valsinn hefur verið kallaður annar þjóðsöngur Austurríkisbúa.

Hið merkilega er að hann sló ekki í gegn þegar hann var frumfluttur árið 1867, en það var í kórútsetningu. Textinn var brandari sem var ætlaður til að hressa Austurríkisbúa og fá þá til að hlæja. Þeir höfðu tapað stríði nokkru áður og voru í illu skapi. Þetta misheppnaðist, en þegar valsinn var leikinn aðeins síðar í hljómsveitarbúningi, varð allt vitlaust og hefur verið það síðan.

Síðasta grímuskyldan

Valsinn er ljúfur og tignarlegur í senn, þrunginn gleði og vímu. Gleði líka var ríkjandi á Vínartónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið. Og ekki að undra. Aðeins nokkrir klukkutímar voru í að öllum samkomutakmörkunum skyldi aflétt. Grímuskylda var á tónleikunum, en vonandi í síðasta skipti um langt skeið.

Tónleikarnir voru líka ljómandi skemmtilegir. Tónlistin eftir Johann Strauss yngri og félaga er auðvitað margþvæld, en hér náði hljómsveitarstjórinn, Kornilios Michailidis, að gæða hana notalegum ferskleika. Í henni var kraftur og fjör, en einnig léttleiki og fágun.

Vínartónleikar eru venjulega snemma í janúar, svo seint í febrúar verður að teljast óvanalegt. En þið vitið ástæðuna.

Safaríkur forleikur

Forleikurinn að Leðurblökunni eftir Strauss yngri var upphafsatriði tónleikanna. Hann var sérlega safaríkur og grípandi í snörpum flutningi hljómsveitarinnar.

Því næst stigu einsöngvararnir á svið, fyrst Herdís Anna Jónasdóttir sópran, og svo Gissur Páll Gissurarson. Þau sungu í nokkrum atriðum á efnisskránni. Almennt talað vakti Herdís meiri lukku meðal tónleikagesta, enda var söngur hennar áreynslulaus og þéttur, með kraftmiklum hápunktum. Hvorugt þeirra náði þó að gera nein lög sérstaklega krassandi.

Magnaðir dansarar

Nei, það voru dansararnir sem stálu senunni svo um munaði. Þetta voru Þorkell Jónsson, Denise Margrét Yaghi, Gylfi Már Hrafnsson og María Tinna Hauksdóttir. Þau voru stórkostleg. Dansinn þeirra, við Keisaravalsinn eftir Strauss yngri og fyrrnefndan Dónárvals, var svo þokkafullur og lifandi, svo mjúkur og dreymandi að það var alveg einstakt. Það var eins og þau svifu um í geimnum, í fullkomnu þyngdarleysi.

Skemmtilegt var líka þegar annar karldansarinn bauð konsertmeistara hljómsveitarinnar, Veru Panitch, upp í vals. Hún lagði þá frá sér fiðluna og tók með honum nokkur glæsileg spor. Auðséð var að Vera er vanur dansari. Nú eru vonandi bjartir tímar framundan.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s