Lokaorð í fangabúðum nasista

Niðurstaða: Misspennandi verk á opnunartónleikum Myrkra músíkdaga.

Heiða Árnadóttir og Tinna Þorsteinsdóttir á Myrkum músíkdögum. Verk eftir Guðmund Stein Gunnarsson, Þórunni Björnsdóttur, Þórönnu Dögg Björnsdóttur og Gunnar Karel Másson.

Norðurljós í Hörpu

þriðjudaginn 1. mars

Það er nótt og húsráðandi, kona, sefur óvært. Hún umlar af og til og skrækir upp úr svefni. Hæna hefur sloppið úr hænsnabúinu í garðinum og komist inn í íbúðina. Hún stendur á borðstofuborðinu, kroppar í matarleifar og gaggar. Að öðru leyti er allt hljótt.

Einhvern veginn svona virtist hljóðheimurinn vera í Adibaran Ocirebal, sólóóperu fyrir eina rödd og rafhljóð eftir Guðmund Stein Gunnarsson. Verkið var flutt á opnunartónleikum Myrkra músíkdaga í Norðurljósum í Hörpu á þriðjudagskvöldið. Heiða Árnadóttir söng, og var með ljósaseríu innanklæða, sem lýsti hana upp að hálfu leyti. Hún var staðsett á svölunum í kringum salinn. Þar gekk hún hægt rangsælis í myrkri á meðan hún framkallaði kostulegu hljóðin fyrrgreindu, með alls konar skrýtnum undirleikshljóðum. 

Tónlistin hafði sjarma, og hún var drepfyndin. Er á leið og ekkert annað bar til tíðinda fór verkið þó að verða nokkuð langdregið. Kannski hefði úrvinnsla hugmyndanna mátt vera djarfari og stærri um sig, því það sem hér bar fyrir eyru risti ekki djúpt.

Tístandi stofuorgel og óræður seiður

Spirit III – endurstilling eftir Þórunni Björnsdóttur var ekki heldur fugl né fiskur. Það var ómerkilegt tíst úr barka söngkonunnar við önnur eins tíst úr stofuorgeli sem Tinna Þorsteinsdóttir lék á. Af og til blés Heiða í rör og framkallaði þannig loftbólur í misstórum vatnsílátum. Ég læt lesandanum eftir að dæma hversu spennandi það var.

Hin verkin á tónleikunum voru mun áhugaverðari. Ilm- og ómleikar eftir Þórönnu Dögg Björnsdóttur voru magnaðir. Tónlistin samanstóð af kröftugum, dökkum, liggjandi hljóðum sem voru skreytt alls konar skærum tónum. Yfir öllu trónaði tilkomumikill söngur Heiðu, og laglínan var grípandi. Það var eitthvað órætt og annarsheimslegt við tónlistina, eitthvað lokkandi og seiðandi, sem erfitt er að skilgreina með orðum. En fögur var hún.

Átök við lögreglu

Songs of Despair/Songs of Violence eftir Gunnar Karel Másson voru líka fallegir. Textarnir voru annars vegar úr bréfum frá föngum í fangabúðum nasista, og hins vegar lokaorð blökkumanna sem hafa látist af völdum lögreglumanna í Bandaríkjunum. Tónlistin minnti á þá sem á Schönberg samdi fyrir um hundrað árum síðan, en virkaði samt ekki gamaldags.

Söngurinn var dálítið eins og söngles, ómstríður og leitandi, þrunginn tilfinningum sem snertu mann. Meðleikur Tinnu, annars vegar á leikfangapíanó og svo á flygil þar sem allskonar dóti hefur verið komið fyrir á strengjunum, var hástemmdur, hrífandi og einstaklega litríkur. Þetta var flott.

Mamma pikkar á tölvu

Loks ber að nefna tónsmíð sem bar nafnið Mamma pikkar á tölvu sumarið 1988 eftir Guðmund Stein. Hún var fyrir leikfangapíanó. Tónahendingarnar voru hnitmiðaðar og hljómurinn í hljóðfærinu var skemmtilegur. En rétt eins og í fyrsta verkinu sem hér var nefnt, gerðist fátt. Kannski er það besta sem segja má um tónlistina að hún var ekki löng og ber að þakka fyrir það.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s