
Niðurstaða: Frábærir tónleikar með dásamlegri tónlist.
Verk eftir Valentin Silvestrov, Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur, John Adams og Daníel Bjarnason. Einleikari var Víkingur Heiðar Ólafsson og stjórnandi Daníel Bjarnason.
Eldborg í Hörpu
miðvikudaginn 2. mars
Hörmungarnar í Úkraínu láta engan með hjarta ósnortinn, og þeirra var minnst á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á miðvikudagskvöldið. Fluttu var örstutt verk eftir úkraínska tónskáldið Valentin Silvestrov, Sofðu Jesús. Tónlistin var hugljúf og dapurleg í senn; fullkominn minnisvarði um viðbjóðinn sem nú á sér stað.
Stemningin í byrjun næstu tónsmíðar, Clockworkin eftir Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur, var ekkert ósvipuð. Þar voru líka langir og angurværir, lágstemmdir hljómar. Þeim óx svo smám saman ásmegin. Innblásturinn mun hafa verið vinnusöngvar bandarískra fanga, þrælavinna sem tekur engan enda.
Endaði í alsælu
Tónavefurinn var dáleiðandi, en eftir innhverft upphafið varð hann upphafnari og endaði í alsælu. Tónlistin var í fyrstu tímalaus, enginn taktur, bara liggjandi hljómar. En svo náði fjarlægur dans yfirhöndinni; það var heillandi stund.
Daníel Bjarnason stjórnaði hljómsveitin og náði að skapa sterka undiröldu sem var afskaplega áhrifarík. Hljómsveitin spilaði líka prýðilega, hver hljóðfærahópur var með sitt á hreinu.
Algert dúndur
Næsta verk á dagskránni var Lollapalooza eftir bandaríska tónskáldið John Adams. Tónlist hans er mínímalísk, byggist á endurtekning lítilla stefbrota sem mynda stórfenglega heild, rétt eins og dómkirkja sem er hlaðin af litlum múrsteinum.
Flókinn fjölhrynur var ríkjandi í verkinu, sem var einstaklega fjörugt. Lollapalooza er nýlegt amerískt orð og mun þýða „algert dúndur“. Tónsmíðin var fertugsafmælisgjöf handa hljómsveitarstjóranum Simon Rattle.
Tónlistin var í bandarískum anda, minnti jafnvel dálítið á West Side Story eftir Leonard Bernstein. Hún reyndi ógurlega mikið á nákvæmni og verður að segjast eins og er að hljómsveitin, undir hnitmiðaðri stjórn Daníels, spilaði hana sérlega vel. Túlkunin einkenndist af gríðarlegri snerpu, hvergi var dauður punktur.
Hryllingur var innblástur
Aðalverkið á tónleikunum var píanókonsert nr. 3 eftir hljómsveitarstjórann, Daníel Bjarnason, sem var frumfluttur nýlega í Bandaríkjunum. Hann bar heitið Feast, Veisla, og var einleikari Víkingur Heiðar Ólafsson.
Kveikjan að konsertinum er hrollvekjandi smásaga eftir Edgar Allan Poe, Grímuball rauða dauðans. Hún fjallar um banvæna plágu og grímudansleik þar sem dauðinn sjálfur er meðal gesta.
Tónlistin byrjaði á líflegum takti með allskonar kræsilegum tónahlaupum upp og niður hljómborðið. Síðan tók við íhugull kafli, drungalegur og ógnvekjandi sem óx í kröftugan hápunkt. Þannig skiptust á skin og skúrir. Tónlistin var viðburðarík, atburðarásin var spennandi og kom stöðugt á óvart; maður vissi aldrei hvað kæmi næst.
Einkennandi fyrir allan konsertinn var glæsileg raddsetning fyrir hljómsveitina, ólíkar raddir mynduðu litríkt mynstur, stórbrotið og lokkandi. Píanóröddin var einnig mögnuð, full af andstæðum. Flutningur Víking Heiðars var vandaður og vel ígrundaður, grípandi og þrunginn ákafa. Hljómsveitin spilaði líka eins og einn maður, hrynjandin markviss og samspilið við einleikarann var eins og best verður á kosið. Þetta var flott.