Vonin um bjartari framtíð

Niðurstaða: Þrjú glæsileg verk vöktu mikla ánægju.

Sinfóníuhljómsveit Íslands flutti verk eftir Missy Mazzoli, Svein Lúðvík Björnsson og Önnu Þorvaldsdóttur. Daníel Bjarnason stjórnaði.

Norðurljós í Hörpu

föstudaginn 11. mars

Aron Copeland sagði einu sinni að það að hlusta á fimmtu sinfóníuna eftir Ralph Vaughan Williams væri eins og að stara á belju í 45 mínútur.

Verkin á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á Myrkum músíkdögum föstudaginn 11. mars voru miklu áhugaverðari. Þau voru engar beljur á beit, heldur einkenndust af spennandi framvindu, kræsilegum hljómum og mögnuðum hljóðfærasamsetningum.

Hið fyrsta var Sinfonia (for Orbiting Spheres) eftir Missy Mazzoli. Það er hugleiðing um sólkerfið, um plánetur sem hringsnúast um sjálfar sig og um sólina. Á sama hátt fara ólíkir hljóðfærahópar hring eftir hring, og heildarmyndin snýst líka. Tónlistin er þó ekki bara einhver endurtekning, heldur vex ásmegin með kraftmikilli stígandi.

Nálægð við hljómsveitina

Verkið var flutt í Eldborginni í Hörpu fyrir ekki löngu síðan, og kom þá satt best að segja ekkert sérstaklega vel út. Það virkaði fremur flatt og litlaust. Hér voru tónleikarnir hins vegar haldnir í Norðurljósasalnum sem bauð upp á miklu meiri nálægð við hljómsveitina. Fyrir vikið heyrðust smáatriðin betur, og tónlistin virkaði mun hnitmiðaðri; það gerðist meira í henni.

Daníel Bjarnason stjórnaði hljómsveitinni ákaflega vel. Hljóðfæraleikurinn var nákvæmur og agaður, en samt gæddur viðeigandi krafti. Heildarhljómurinn var voldugur og þéttur. Hvergi var dauður punktur í tónlistinni.

Næst á dagskrá var tónsmíð eftir Svein Lúðvík Björnsson sem nefndist Glerhjallar. Hún var tileinkuð minningu Atla Heimis Sveinssonar, sem var kennari Sveins.

Fyrir mjög löngu síðan birtist háðsglósa um Atla í Pressunni – sem eitt sinn var, um að ef Atli myndi láta út úr sér um fyrirhugaða tónleika Iron Maiden í Laugardalshöllinni að þar væru á ferðinni áhugaverðir tónlistarmenn, þá myndi hann tryggja að enginn kæmi á tónleikana. Svona var staðan á nútímatónlist fyrir 30 árum síðan; fáir sýndu henni nokkra athygli. Þetta hefur sem betur fer breyst og núna var ágætis mæting, þrátt fyrir framúrstefnulega dagskrá.

Hrífandi skáldskapur

Verk Sveins kom afskaplega vel út. Það einkenndist af hvössum, háværum tónum (einmitt í stíl Atla Heimis) sem svo umbreyttust í eitthvað annað; önnur blæbrigði, aðrar hljómasamsetningar sem komu sífellt á óvart. Umgjörð tónlistarinnar var fremur hófsöm, þar voru engar melódíur, aðeins áferð og blæbrigði. Engu að síður var skáldskapurinn hrífandi og hljómsveitin kom honum prýðilega til skila.

Síðasta tónsmíðin var Catamorphosis eftir Önnu Þorvaldsdóttur. Nafnið er myndað úr tveimur orðum, catastrophe eða katastrófu og metamorphosis, þ.e. umbreytingu. Innblásturinn mun vera gjöreyðing mannkyns ef ekkert verður gert í umhverfismálum, og vonin um að horfur muni breytast til batnaðar.

Tónlistin var heillandi. Hún byrjaði á hálfgerðri ringulreið, á sársukafullum hljómum sem líkt og misstu fókusinn í hvívetna. Smám saman birti þó til og það var ákaflega fagurt. Hljómarnir voru ekki af þessum heimi, stefbrot og hendingar voru heillandi, magnþrungin undiralda skapaðist sem var alveg einstök. Útkoman var höfugur tónaseiður sem lengi verður í minnum hafður.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s