Heilagt, heiðarlegt og fagurt

Niðurstaða: Bach var góður en Hjálmar frábær.

Sif Tulinius flutti verk eftir Bach og Hjálmar H. Ragnarsson.

Kristskirkja

þriðjudaginn 15. mars

Þegar Bach var ungur og starfaði sem kirkjuorganisti í Arnstadt þurfti hann einnig að þjálfa námsmannakór og hljómsveit. Hann hafði óbeit á því. Á einni hljómsveitaræfingunni missti hann stjórn á sér og kallaði seinheppinn fagottleikara öllum illum nöfnum. Fagottleikarinn tók því ekki þegjandi, og nokkrum dögum síðar réðst hann á Bach með barefli. Hann svaraði með því að draga fram rýting. Þetta hefði getað farið illa, en nærstaddir gátu stíað þeim í sundur.

Mikið skap Bachs var ekkert sérstaklega áberandi í leik Sifjar Tulinius fiðluleikara í Kristskirkju. Hún flutti þar einleikssónötuna í g-moll, og gerði það vissulega fallega. Tónninn í fiðlunni var breiður og hlýr, og ljúf endurómunin í kirkjunni lyfti honum upp í æðra veldi. Hins vegar var fúgan í öðrum kafla verksins, sem er eiginlega þungamiðja þess, dálítið varfærnisleg. Hún var ekki beint hugarfóstur manns sem dró fram rýting þegar svo bar undir. Hrynjandin hefði mátt vera skarpari. Að öðru leyti var sónatan sannfærandi; t.d. var fyrsti kaflinn innilegur og hástemmdur. Sömu sögu er að segja um kaflana tvo á eftir fúgunni, sem voru ýmist leiðslukenndir eða líflegir.

Bergmál aftur úr öldum

Aðalmálið á efnisskránni var þó ekki Bach, heldur frumflutningur á Partítu eftir Hjálmar H. Ragnarsson. Skemmtilegt var hvernig sú tónsmíð kallaðist á við þá sem áður var leikin. Bach samdi sjálfur partítur, sem er safn dansþátta. Dansinn var kannski ekki sérlega fyrirferðarmikill í verki Hjálmars, en engu að síður var eins og bergmál aftur úr öldum væri í tónlistinni. Eitthvað við form og yfirbragð Partítunnar minnti á einleikssónötu Bachs.

Partítan byrjaði á ómstríðum hljómum – þ. á m. tónskröttum (stækkuðum ferundum). Þeir sköpuðu myrka stemningu. Maður þakkaði fyrir að séra Patrick Breen hafði beðið Faðirvorið á undan tónleikunum og minnt gesti á að þeir væru í Guðshúsi!

Um ekki neitt

Eftir þetta tóku við kraftmiklar andstæður, ýmist áköf leit að hinum hreina tóni, eða innhverf hugleiðsla. Hvergi var dauður punktur í tónlistinni. Hjálmar sagði í tónleikaskránni að hún væri ekki um neitt, þar væri enginn boðskapur. Samt sem áður var eitthvað heilagt í tónmálinu, eitthvað heiðarlegt og fagurt. Stígandin var voldug og grípandi. Innra samræmið í tónlistinni var í mjög góðu jafnvægi. Form verksins var áleitið og sífellt meira krassandi eftir því sem á leið.

Undir lokin varð stemningin íhugul, þar var náttúrustemning sem var ekki af þessum heimi. Hún var einstaklega hrífandi. Og síðasti kaflinn byrjaði vélrænt, en svo komu allt í einu furðulega frjálslegir brotnir hljómar, eins og ferskur vindur – maður vissi ekki hvaðan, en útkoman var ævintýraleg. Lokahljómurinn, í moll, kallaðist aftur á við fortíðina og einleikssónötuna eftir Bach, sem einnig var í moll. Þetta var magnað.  

Sif flutti verkið af sívaxandi þunga og einstakri tilfinningu fyrir smæstu blæbrigðum, en einnig meginformi tónlistarinnar, þar sem allar línur voru skýrar. Þetta var sérlega ánægjuleg upplifun og mann langaði strax til að heyra tónsmíðina aftur. Vonandi kemur hún út á upptöku fyrr en seinna.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s