Tónlistin varð að blindandi sól

Niðurstaða: Margt gríðarlega vel gert, en annað var síðra.

Erna Vala Arnardóttir flutti verk eftir Mozart, Ravel, Rameau, Sibelius, Rakhmanínoff og Skrjabín.

Salurinn í Kópavogi

þriðjudagur 22. mars

Mozart var mikill grínisti og eitt sinn samdi hann sérstakt verk sem hét Tónlistarbrandari. Þar er heiltónaskali sem þekktist ekki á þeim tíma, samstíga fimmundir sem voru bannaðar, og svo endaði verkið í nokkrum mismunandi tóntegundum. Síðar meir voru þessar aðferðir teknar upp af öðrum tónskáldum og þykja nú ekkert tiltökumál, nokkuð sem hefði ekki hvarflað að Mozart á þeim tíma.

Sónatan hans nr. 18 í D-dúr KV 576 er líka hálfgerður brandari, full af skondnum tilþrifum og kítlandi hendingum. Erna Vala Arnardóttir flutti hana á tónleikum í Salnum í Kópavogi á þriðjudagskvöldið og gerði það í sjálfu sér ágætlega. Leikurinn var öruggur og skýr, hröð tónahlaup fullkomlega spiluð. Hins vegar var túlkunin dálítið kuldaleg, léttleikann vantaði og sumt hefði mátt vera innilegra.

Stígandin stórglæsileg

Næsta verk á dagskránni var mun meira sannfærandi. Það var La Valse eftir Ravel í einleiksútgáfunni, en m.a. er líka til útfærsla á tónsmíðinni fyrir tvo píanóleikara. Erna Vala hafði gríðarlega erfiða tónlistina fullkomlega á valdi sínu; leikur hennar var eins og hjá tveimur píanóleikurum – hið minnsta! Stígandi var stórglæsileg og hápunktarnir magnaðar flugeldasýningar. Spilamennskan var glitrandi og alls konar heljarstökk heppnuðust prýðilega.

Eftir hlé flutti píanóleikarinn tvö stutt stykki eftir Rameau, La villageoise og Le rappel des oiseaux. Hið fyrra var fallegt, en hið síðara, þar sem líkt er eftir fuglasöng, hefði mátt vera nákvæmara. Hraðar tónahendingar og trillur voru örlítið götóttar, sem virkuðu truflandi. Fyrir bragði fór tónlistin aldrei á flug.

Þrjú verk úr lagaflokki op. 24 eftir Sibelius komu mun betur út, túlkunin var einlæg og tilfinningaþrungin. Sömu sögu er að segja um Etude-Tableaux op. 39 nr. 5 eftir Rakhmanínoff, sem var þykk og munúðarfull, akkúrat eins og hún átti að hljóma.

Andlegar upplifanir

Lokatónsmíðin á efnisskránni var fjórða sónatan eftir Skrjabín. Hann var píanóleikari, auk þess að vera tónsmiður, og samdi aðallega píanótónlist. Hún var í dramatískum, síðrómantískum stíl til að byrja með. Þegar hann var 31 árs kynntist hann guðspeki og fór að verða fyrir ýmsum andlegum upplifunum sem hann reyndi að lýsa í tónlist sinni.

Fjórða sónatan er tónaljóð, innblásturinn er ákveðin sýn sem Skrjabín túlkaði í tónum. Sýnin er af blárri stjörnu og listamaðurinn hefur sig þá á flug og flýgur til hennar. Hún verður að blindandi sól sem hann sameinast í stórkostlegri alsælu.

Verkið er í tveimur köflum. Hinn fyrri er innhverfur og draumkenndur, en hinn síðari á að vera ofurhraður og „fljúgandi“ samkvæmt fyrirmælum tónskáldsins. Fyrri kaflinn var afskaplega fallegur og vel mótaður hjá Ernu Völu. Hinn síðari hitti hins vegar ekki alveg í mark. Fyrir það fyrsta var leikurinn of hægur, flugið í tónlistinni komst ekki til skila. Ýmis tæknileg atriði voru ekki heldur eins og best verður á kosið, hraðar nótur voru oft loðnar. Útkoman var hvorki fugl né fiskur.

Engu að síður er Erna Vala mjög góður píanóleikari, og eins og hér er komið fram, gerði margt vel. Þar var Ravel langbestur; hann var svo sannarlega eftirminnilegur.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s