
Niðurstaða: Tónleikarnir voru ekki góðir.
Voces Thules flutti tónlist eftir Svein Lúðvík Björnsson, Arngerði Maríu Árnadóttur, Eggert Pálsson og fleiri.
Salurinn í Kópavogi
þriðjudaginn 5. apríl
Þjóðminasafnið fékk andlitslyftingu árið 2004. Skömmu síðar fjallaði Guðni Elísson um þessa breytingu í grein í Ritinu, og bar stemninguna þá saman við safnið áður. Hann sagði að á æskuárum sínum hafi hann alltaf hafa skammast sín þegar hann fór með útlendinga í safnið. Myrkur og drungi hafi einkennt andrúmsloftið, sem ekki hafi verið aðlaðandi. Greinilegt hafi verið að „tækifærin gengu Íslendingum sífellt úr greipum…“
Myrkur og drungi
Mér varð hugsað til þessara orða á tónleikum sönghópsins Voces Thules sem fagnar þrjátíu ára afmæli um þessar mundir. Tónleikarnir voru haldnir í Salnum í Kópavogi á þriðjudagskvöldið og voru nokkuð misjafnir. Megnið af tónlistinni var ættuð aftur úr öldum og var stemningin myrk og drungaleg. Það getur auðvitað haft sinn sjarma, en þá hefði flutningurinn þurft að vera almennilegur.
Salurinn í Kópavogi er frábært hús, en endurómunin þar sem fremur lítil sem hentar órafmögnuðum söng ekkert sérstaklega vel. Voces Thules samanstóð að þessu sinni af þeim Einari Jóhannessyni, Eiríki Hreini Helgasyni, Eggerti Pálssyni, Eyjólfi Eyjólfssyni, Pétri Húna Björnssyni og Sigurði Halldórssyni. Þeir eru misgóðir söngvarar, svo vægt sé til orða tekið. Sumir eru vanir og skólaðir sviðsmenn, aðrir ekki. Það hefði kannski verið í lagi ef þeir óskóluðu hefðu haft vit á að syngja bara í samsöng, en svo var ekki.
Neyðarlegur söngur
Eggert Pálsson er frábær slagverksleikari í Sinfóníunni, en söngvari er hann ekki. Því miður var hann mest áberandi söngvarinn á tónleikunum, og var útkoman ámátleg. Hann hafði enga rödd og í þurrum hljómburðinum var útkoman allt að því neyðarleg.
Ástæðan fyrir því að Eggert var svo oft forsöngvari var að töluvert af tónlistinni var eftir hann sjálfan. Laglínurnar voru vissulega áheyrilegar, en þær drukknuðu í slæmum söngnum. Gaman væri að heyra þær sungnar af atvinnumanni.
Mistækur hljóðfæraleikur
Hljóðfæraleikurinn var líka hálf aumingjalegur. Einar Jóhannesson er magnaður klarinettuleikari, en hér spilaði hann ósköp varfærnislega á hörpu. Eyjólfur lék fremur viðvaningslega á flautu og sama gerði Eggert með vafasömum árangri.
Tvö verk voru frumflutt á tónleikunum. Agnus dei eftir Svein Lúðvík Björnsson missti marks, það var of flókið fyrir mistæka söngvarana og hljómburðurinn fór því ekki vel. Gekk ég í gljúfrið dökkva eftir Arngerði Maríu Árnadóttur var meira spennandi, enda einfaldara og hópurinn réð betur við það.
Af einhverjum ástæðum var tónleikaskráin ekki prentuð, heldur bara QR kóði sem maður átti að skanna í anddyrinu. Þetta var bagalegt. Það var pirrandi að þurfa alltaf að rýna í símann til að vita hvað verið var að syngja. Á einum tímapunkti vissu söngvararnir sjálfir ekki hvað var næst og þurftu að spyrja áheyrendur! Segja má að þessi vandræðagangur hafi einkennt megnið af þessari undarlegu dagskrá í heild, og olli hún miklum vonbrigðum.