
Niðurstaða: Stórfengleg sýning, ótrúleg tónlist.
Álfheiður Erla Guðmundsdóttir sópran flutti verk eftir Crumb, Sibelius, Muhly og útsetningar eftir Viktor Orra Árnason. Kunal Lahiry lék á píanó. Strengjakvartett kom einnig fram sem samanstóð af Viktori Orra Árnasyni, Pétri Björnssyni, Guðbjarti Hákonarsyni og Hrafnhildi Mörtu Guðmundsdóttur. Leikstjórn: Andrea Tortosa Baquero.
Eldborg í Hörpu
miðvikudaginn 6. apríl
Að ganga inn í Eldborgina í Hörpu á miðvikudagskvöldið var eins og að koma inn í draugahús. Þéttir reykjabólstrar sköpuðu annarlega stemningu. Uppsetningin var öðru vísi en maður á að venjast. Í stað þess að taka sér sæti á áheyrendabekk var manni gert að setjast á aftari hluta sviðsins og horfa út í sal. Öllu hafði verið snúið við; fremri hluti sviðsins og áheyrendabekkirnir á neðstu hæð voru vettvangur tónlistarfólksins, risastór geimur; allur salurinn var sviðið. Gegnsæ tjöld héngu niður úr loftinu í miðjum salnum. Það var rökkur; þetta var vægast sagt dularfullt.
Andrúmsloft hins yfirskilvitlega
Tónlist er list og tjáning hins ósýnilega. Á tónleikunum sem hér um ræðir var það með eindæmum áþreyfanlegt. Álfheiður Erla Guðmundsdóttir sópran var í aðalhlutverki og flutti aðallega lög eftir Jean Sibelius og George Crumb. Sá síðarnefndi lést fyrir um tveimur mánuðum og var einn merkasti tónsmiður samtímans. Tónlist hans einkenndist af trúarlegum og goðsagnalegum tilvísunum og stefjum; enginn, að Skrjabín undanskildum, náði að fanga andrúmsloft hins yfirskilvitlega eins vel í verkum sínum.
Meginuppistaða efnisskrárinnar var lagaflokkurinn Appararition eftir Crumb, en inn á milli voru lög eftir Sibelius frá mismunandi tímabilum, auk þess sem nokkur íslensk þjóðlög skutu upp kollinum.
Kom út úr myrkrinu
Þetta voru þó ekki bara tónleikar, heldur sviðsverk. Pallur, eða göngubraut öllu heldur, hafði verið reist sem lá frá sviðinu og yfir áheyrendabekkina. Við upphaf sýningarinnar gekk söngkonan eftir brautinni til áheyrenda, út úr myrkrinu. Yfir pallinum héngu tjöldin sem fyrr var minnst á, og á þau var varpað alls konar hreyfimyndum, eftir því um hvað verið var að syngja. Inn í tónlistina fléttaðist svo dans Mörtu Hlínar Þorsteinsdóttur, sem var forkunnarfagur.
Tónlistin eftir Sibelius og Crumb blandaðist ágætlega saman. Ljóðrænan í þeim fyrrnefnda var yndislega vel útfærð af Áfheiði, sem söng af mýkt, innileika og heilindum. Röddin var fullkomin, í senn tær, breið og hljómmikil. Túlkunin var full af tilfinningum, skreytt litríkum blæbrigðum.
Glæddur viðeigandi dulúð
Crumb var gæddur viðeigandi dulúð, bæði í söngnum en ekki síður í rödd píanósins, sem Kunal Lahiry lék á af óviðjafnanlegri fagmennsku. Leikur hans var fágaður og markviss, tónarnir svo merkingarþrungnir og annarsheimslegir að dásamlegt var.
Eitt lag eftir Nico Muhly var frumflutt á tónleikunum, Sá ég svani. Laglínan þar var sérstaklega fögur, frjálsleg og innblásin, umvafin margvíslegum, fínlegum litbrigðum.
Hrífandi og full af stemningu
Nokkrar útsetningar eftir Viktor Orra Árnason á íslenskum þjóðlögum voru líka frumfluttar. Þar var undirleikurinn í höndum strengjakvartetts sem samanstóð af Pétri Björnssyni, Guðbjarti Hákonarsyni og Hrafnhildi Mörtu Guðmundsdóttur, auk Viktors. Leikur kvartettsins var lágstemmdur en nákvæmur og útsetningarnar voru hrífandi og stemningsríkar.
Andrea Tortosa Baquero leikstýrði sýningunni og gerði það sérlega vel. Flæðið í henni var sannfærandi, hún var heildstæð og grípandi. Lokaatriðið, þegar Álfheiður gekk út í myrkrið aftur um leið og hún söng The Night in Silence Under Many a Star eftir Crumb, var ólýsanlegt. Það var eins og að sameinast nóttinni og stjörnunum, hverfa inn í kosmosið og myrkrið. Þetta var magnaður tónaseiður og sjónarspil; einstakur, ógleymanlegur listviðburður.