Míkael erkiengill reið um á dómsdegi

Niðurstaða: Aðdáunarverður tónlistarflutningur.

Verdi: Sálumessa. Flytjendur: Söngsveitin Fílharmónía og sinfóníuhljómsveit. Einsöngvarar: Hallveig Rúnarsdóttir, Hildigunnur Einarsdóttir, Gissur Páll Gissurarson og Kristinn Sigmundsson. Konsertmeistari: Sif Margrét Tulinius. Stjórnandi: Magnús Ragnarsson.

Tenórsöngvarinn frægi, Jose Carreras, sagði einu sinni að maður ætti aldrei að rífast við sópransöngkonu. Ég myndi a.m.k. ekki vilja lenda í rifrildi við Hallveigu Rúnarsdóttur, sem var í einsöngshlutverki í Sálumessu Verdis hjá Söngsveitinni Fílharmóníu í Langholtskirkju á sunnudagskvöldið.

Hallveig söng af þvílíkri þrumuraust að henni tókst að yfirgnæfa heila sinfóníuhljómsveit og stóran kór á fullu. Ég er með Apple úr sem mælir hljóðstyrk, og það sýndi 100 desíbel; ekkert smáræði. Auðvitað er kraftur einn og sér enginn mælikvarði á list. En Hallveig söng af einstakri tilfinningu fyrir inntaki tónlistarinnar hverju sinni, söngur hennar var í hvívetna fagmannlegur og stórbrotinn.

Þessir tónleikar hafa staðið lengi til. Covid gerði Söngsveitinni lífið leitt og þurfti að fresta flutningnum oftar en einu sinni. Loksins kom að því.

Kannski hefur biðin gert að verkum að enn meira var lagt í túlkunina en annars. Þetta voru nefnilega stórkostlegir tónleikar.

Helvíti er raunverulegt

Sálumessan eftir Verdi er með eindæmum dramatísk. Hún byggir á hugarheimi Kaþólsku kirkjunnar eins og hann var áður en kirkjan var færð til nútímans á Vatíkanþinginu á sjöunda áratug aldarinnar sem leið. Helvíti er þar raunveruleiki og allir sem ekki eru sanntrúaðir og hreinlífir kaþólikkar lenda í logunum á dómsdegi.

Sálumessa Verdis þótti heldur munúðarfull og dramatísk þegar hún heyrðist fyrst, hún er eiginlega hálfgerð ópera. Tónlistin er mögnuð, lýsingin á dómsdegi er svo raunveruleg að maður sér fyrir sér heiminn brenna upp í kosmískri ógn og skelfingu.

Frábær einsöngur, frábær kór

Einsöngvarnir stóðu sig frábærlega. Þegar hefur verið minnst á frammistöðu Hallveigar, en hinir voru ekkert síðri. Það voru þau Hildigunnur Einarsdóttir messósópran, Gissur Páll Gissurarson tenór og Kristinn Sigmundsson bassi. Raddir þeirra voru þéttar og stórar, auk þess sem þær blönduðust einkar vel saman svo úr varð voldugur heildarhljómur.

Kórinn var líka með sitt á hreinu. Heildarmyndin var gædd sannfærandi fyllingu og mismunandi raddir voru tærar og í góðu jafnvægi innbyrðis. Sönggleðin var einnig smitandi, það var einhver áfergja og tilfinningahiti í söng kórsins sem fór tónlistinni ákaflega vel.

Mögnuð hljómsveit

Hljómsveitin var jafnframt pottþétt á sínu. Slagverkið var meistarlegt; pákur Franks Aarninks og bassatromma Kjartans Guðnasonar voru eins og hófatakið þar sem Míkael erkiengill ríður um á dómsdegi. Hvílík læti! Sellósóló Steineyar Sigurðardóttur var himneskt; þannig mætti lengi telja. Í heild var hljómsveitin afar fókuseruð og skilaði hlutverki sínu á óviðjafnanlegan hátt.

Magnús Ragnarsson stjórnaði herlegheitunum og gerði það með bravúr. Túlkunin, undir hans stjórn, var grípandi og innileg, glæsileg og hástemmd, svo mjög að maður féll í stafi aftur og aftur. Hvergi var dauður punktur. Án efa var þetta besti flutningur á Sálumessu Verdis sem undirritaður hefur heyrt á tónleikum.  

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s