Engar eldspúandi ófreskjur

Niðurstaða: Frábærir tónleikar með einstakri tónlist.

Verk eftir Duruflé, Alain og Fauré. Flytjendur: Kór Langholtskirkju, Álfheiður Erla Guðmundsdóttir, Fjölnir Ólafsson og Björn Steinar Sólbergsson. Stjórnandi: Magnús Ragnarsson.

Hallgrímskirkja

laugardagur 16. apríl

Sálumessa Gabriels Fauré er svo falleg að vart er hægt að lýsa henni með orðum. Tónskáldið samdi hana ekki eftir pöntun eins og Mozart, heldur í minningu föður síns, og er hún þrungin sannri trúartilfinningu. Hún er laus við ofsafengið dramað í velflestum sambærilegum verkum, þar sem kvalir syndugra sálna í hreinsunareldinum eru gjarnan aðalatriðið, og eldspúandi ófreskjur flögra um.

Til gamans má geta að ein frumleg hugmynd um helvíti er að þar séu eingöngu leikin misheppnuð tónverk eftir léleg tónskáld. Glymja þau í eyrum syndaranna án afláts. Engin man eftir þessum tónskáldum í dag, en þar neðra vita sko allir hver þau eru. Ef þetta er ekki helvíti, þá veit ég ekki hvað er. Sálumessa Faurés á hinsvegar heima á himnum, og hlýtur að vera uppáhaldstónverk Guðs.

Sálumessan var flutt í Hallgrímskirkju laugardaginn fyrir páska af Kór Langholtskirkju. Afhverju tónleikarnir fóru ekki fram í þeirri kirkju veit ég ekki, en Hallgrímskirkja er síst verri ef maður situr sæmilega nálægt flytjendum. Aftar í kirkjunni fer bergmálið að hafa miður góð áhrif.

Lágstemmd og hógvær

Verk Faurés er til í nokkrum hljóðfærasamsetningum, en hér var flutt útgáfa þar sem eingöngu var leikið á orgel. Það gerði ekkert til. Tónlistin er að mestu öll lágstemmd og hógvær og orgelið umvafði kórsönginn einkar fallega, skapaði honum hugljúfa umgjörð. Kórinn söng af næmi og innileika, söngurinn var hreinn og í prýðilegu jafnvægi. Útkoman var einstaklega áhrifarík. Magnús Ragnarsson stjórnaði og gerði það af smekkvísi. Ljóðræna var í tónlistinni sem var ákaflega sannfærandi. Það var yfir henni andakt og helgi sem átti þar fyllilega heima.

Tveir einsöngvar komu fram, en hlutverk þeirra voru ekki veigamikil miðað við ýmsar aðrar sálumessur. Fjölnir Ólafsson bariton söng af einlægni og sannri tilfinningu, rödd hans var þróttmikil og breið. Álfheiður Erla Guðmundsdóttir sópran söng svo einn þekktasta kaflann í sálumessunni, Pie Jesu, en þar var eingöngu orgelundirleikur; kórinn kom hvergi við sögu. Pie Jesu er oft sunginn af drengjasópran, það þarf að vera þannig birta og tærleiki í túlkuninni. Álfheiður náði þessu fullkomlega, söngur hennar var einstaklega fagur og gæddur viðeigandi bænahita.

Lifandi og kraftmikill

Björn Steinar Sólbergsson lék á orgelið og gerði það af ögun og nákvæmni. Hann spilaði líka á undan sálumessunni Prelúdíu og fúgu um nafnið Alain eftir Maurice Duruflé. Leikur hans var lifandi og kraftmikill, notaleg stígandi var í tónlistinni, akkúrat eins og hún átti að vera.

Loks ber að geta Vocalise dorienne – Ave Maria eftir Jehan Alain, sem var sungin af Álfheiði og Björn Steinar lék með. Það var hrífandi tónlist sem komst ágætlega til skila í mögnuðum flutningi. Þetta voru dásamlegir tónleikar og yndislegur inngangur að páskunum.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s