Þegar eistun vöfðust fyrir

Niðurstaða: Sérlega vandaðir tónleikar með fallegri tónlist, hástemmdum söng og flottum hljóðfæraleik.

Sigríður Ósk Kjartansdóttir, Lára Bryndís Eggertsdóttir, Guðbjörg Hlín Guðmundsdóttir og Steinunn A. Stefánsdóttir fluttu tónlist frá barokktímanum.

Norðurljós í Hörpu

Þriðjudaginn 26. apríl

Er kontratenórinn Sverrir Guðjónsson hóf fyrst upp raust sína hér á landi fyrir margt löngu litu menn hver á annan. Kontratenór syngur í falsettu og rödd hans hljómar eins og í konu. Spaugstofan gerði grín að þessum einkennilega söngstíl og Örn Árnason lék Sverri. Haft var við hann viðtal og spyrillinn varpaði fram þessari spurningu: „Hver er munurinn á kontratenór og geldingi?“ Örn svaraði: „Ja, geldingur er ekki með… ekki með… ekki með sambærilega menntun!“

Mér datt þetta í hug á tónleikum á vegum Íslensku óperunnar sem fóru fram í Norðurljósum í Hörpu í hádeginu á þriðjudaginn. Sigríður Ósk Krinstjánsdóttir mezzósópran söng þar m.a. Or la nube procellosa eftir Porpora, sem hann samdi fyrir geldinginn Farinelli, einn dáðasta söngvara síns tíma. Á þeim tíma, sextándu og sautjándu öld, þótti sjálfsagt að skera eistun undan efnilegum söngvurum áður en þeir fóru í mútur.

Náttúrulegir geldingar

Til fróðleiks má geta að örlítil prósenta karlmanna verður aldrei kynþroska. Þeir eru kallaðir náttúrulegir geldingar. Einn slíkur er söngvari sem heitir Radu Marian. Frábært sýnishorn með söng hans má finna á YouTube undir heitinu „Radu Marian, Handel “Lascia ch’io pianga”.“ Röddin er furðuleg, hún er sópran, en samt allt öðruvísi en konu- eða barnarödd. Hún gefur manni hugmynd um hvernig geldingar fyrri alda hljómuðu.

Sigríður söng einmitt þessa aríu Handels og gerði það ákaflega vel. Hún söng líka allt annað prýðilega. Söngkonan hefur sérhæft sig í tónlist barokktímans og eingöngu slík tónlist var á efnisskránni. Rödd Sigríðar var þétt og einbeitt, dillandi og lífleg; akkúrat eins og hún átti að hljóma.

Þrungin tilfinningu

Fyrrnefnd Lascia ch‘io piango, eða Láttu mig gráta, úr óperunni Rinaldo var þrungin tilfinningu, en samt voru tónarnir tærir og bjartir. Sömu sögu er að segja um Strike the viol, Sound the trumpet og If Music be the food of love eftir Purcell. Söngurinn rann fram áreynslulaust; flæðið í túlkuninni var óheft.  

Þrír hljóðfæraleikarar komu fram með Sigríði. Þetta voru þær Lára Bryndís Eggertsdóttir sem lék á sembal, Guðbjörg Hlín Guðmundsdóttir á fiðlu og Steinunn A. Stefánsdóttir á selló. Leikur þeirra var flottur.

Það gneistaði af La Folia eftir Corelli, einföldu stefi sem varð að flóknum tilbrigðum. Alls konar skrautleg tónahlaup æddu eftir strengjum fiðlunnar og sellósins. Samt var leikurinn ávallt nákvæmur. Hvergi var dauður punktur. Sónata í G-dúr eftir Gabrielli lék líka í höndunum á Steinunni, en þar var sellóið í aðalhlutverki. Þetta var einhvern veginn ekkert mál fyrir hana. Minntist maður þá orða Schumanns, sem sagði að ef ekki er leikið við hljóðfærið, er ekki heldur leikið á það. Þetta var mögnuð stund.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s