Spurt hvort skrattinn þurfi að eiga öll góðu lögin

Niðurstaða: Píanókonsert eftir John Adams var óttalegt þunnildi, en annað var bitastæðara.

Verk eftir Johns Adams í flutningi Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Einleikari: Víkingur Heiðar Ólafsson. Stjórnandi: John Adams.

Eldborg í Hörpu

fimmtudaginn 5. maí

Fyrir nokkru fór um internetið orðrómur um að tónskáldin Arnold Schönberg, Anton Webern og félagar hefðu unnið á laun með nasistum. Þeir hefðu komið skilaboðum til annarra njósnara í Bandaríkjunum og Bretlandi með því að dulkóða þau í tónverkum sínum. Tónlistin byggðist á tólftónatækninni, sem getur af sér ómstríð, tormelt tónverk. Þegar sagan komst í hámæli mun bandaríska tónskáldið John Adams hafa sagt: „Allt frá því ég kynntist fyrst verkum Arnolds Schönberg hef ég velt því fyrir mér hvern fjandan fólk heyrði í þeim. Núna veit ég það.“

Adams er einn af þeim sem hafna algerlega þessari ómstríðu tónlist og semur í staðinn verk sem byggjast á svokallaðri naumhyggju. Þar er sama hendingin endurtekin í sífellu, en þó með einhverjum breytingum. Endurtekning hins litla skapar hið stóra, rétt eins og óteljandi smáir múrsteinar mynda heila dómkirkju.

Víkingur var einleikari

Á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands á fimmtudagskvöldið stjórnaði Adams sjálfur, en Víkingur Heiðar Ólafsson lék einleik. Öll verkin á dagskránni voru eftir stjórnandann. Víkingur var í aðalhlutverkinu í píanókonsert sem ber titilinn Must the Devil Have All the Good Tunes? Setningin er eignuð Marteini Lúter, sem taldi að veraldlega tónlist (sem sagt skrattans) mætti vel nota í messum, og þá með andlegum texta.

Titill konsertsins vísar væntanlega til hins poppaða yfirbragðs, þ. á m. til stefsins úr einkaspæjaraþáttununum Peter Gunn eftir Henry Mancini. Almenn rokksstemning gegnsýrir konsertinn. Með titilinum er Adams að spyrja hvort ekki megi nota tónlist lágmenningarinnar í „akademískri“ tónsmíð, hvort hún eigi ekki erindi á sinfóníutónleikum líka. Þurfa næturklúbbarnir og síbyljan að eiga öll góðu lögin?

Innantómur konsert

Konsertinn var í nokkuð hefðbundnu formi, fyrsti og þriðju kaflinn í hröðum takti, en miðkaflinn innhverfur. Ég hef ekki heyrt hann áður, enda nýlegur, en ég hef ekki misst af miklu. Hann var skelfilega innantómur. Hröðu kaflarnir voru vissulega grípandi, en hægi kaflinn var þunnur þrettándi.

Hendingarnar í öllum þáttunum voru máttlausar og tilgangslausar, þær voru reykur án elds, aðeins effektar á yfirborðinu. Tónlistin bjó ekki yfir neinni dýpt, Adams virtist ekki liggja neitt á hjarta með henni. Víkingur spilaði þó vel og af miklu öryggi, leikur hans var skýr og kröftugur, fullur af lífi og tilþrifum. En það dugði skammt. Nei, þetta var tónlist til að skemmta skrattanum.

Innblásin sinfónía

Annað á tónleikunum var mun betra. Short Ride in a Fast Machine var sérlega eggjandi og fjörugt, en aðalverkið á dagskránni var sinfónían Harmonielehre, sem hitti svo sannarlega í mark, þótt flutningurinn sjálfur hafi ekki verið fullkominn. Þetta er eldri tónsmíð, samin árið 1985 og er í þremur köflum. Hún byggðist fyrst og fremst á síendurteknum hendingum naumhyggjunnar, en stundum lágu mjög hægferðugar melódíur undir kviku yfirborðinu sem voru einkar áhrifaríkar. Ólíkt píanókonsertinum var sinfónían full af innblæstri, þar var atburðarás sem greip mann, hápunktar sem voru stórfenglegir og hægu stefin unaðsleg. Þetta var magnað.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s